132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Könnun á fjarsölu og kostun.

194. mál
[15:11]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er ekki oft sem ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur en ég verð að lýsa því yfir og segi alveg eins og er að það voru ákveðin vonbrigði líka fyrir mig að fá ekki þessa könnun í hendur og að hún sé ekki búin. En þetta verk er alla vega í gangi og ég tek undir með hv. þingmanni að það er gott að sjá hverjir framkvæma þessa könnun. Ég bind vonir við að þetta verði búið núna fyrir árslok og hvet þá hv. þingmann, ef það verður þá ekki búið, að koma með aðra fyrirspurn til mín. Þá getum við rætt þetta aftur. En ég vil ekki nota svo sterk orð og gefa mér það algjörlega fyrir fram að sjónvarpsstöðvarnar og útvarpsstöðvarnar séu algerlega að misnota aðstöðu sína varðandi kostun og fjarsölu. Þess vegna erum við m.a. að fara í þessa könnun. Ég vara við því að menn gefi sér þessa niðurstöðu fyrir fram þó að það séu margar ákveðnar vísbendingar til okkar. Það er aftur á móti annað mál.

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir bíðum báðar spenntar eftir þessari könnun.