132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Kóngakrabbi.

105. mál
[15:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp öðru sinni til að fjalla um mál sem kannski er skylt kanínuinnrásinni miklu í Vestmannaeyjum en nú beinum við athyglinni að hafinu í staðinn fyrir því sem gerist neðan jarðar á Heimaey.

Hér er um að ræða um annan flæking sem gæti borist til Íslands, hefur að því best er vitað ekki komið hingað enn þá, en það er svokallaður kóngakrabbi sem getur orðið gríðarlega stór, um tveir metrar á milli klóa. Kóngakrabbar éta allt sem þeir komast yfir og voru settir út af Rússum við strendur Kólaskaga við Norður-Noreg á árunum 1960–1970. Þar var á ferðinni tilraun til svokallaðrar hafbeitar. Menn vildu setja þennan krabba út, sem upphaflega kemur úr Kyrrahafi, til að gá hvort hann mundi ná að stækka og síðan ætluðu menn að veiða hann til matar. Hér er um mjög verðmæta vöru og verðmæta afurð að ræða og Rússarnir höfðu vonir um að þarna væri hægt að koma á fót nýjum atvinnuvegi í Norðvestur-Rússlandi.

Það sem gerðist hins vegar og kom mönnum á óvart var það að krabbinn fór að fjölga sér. Hann náði að aðlagast náttúrunni á þessum slóðum og þegar stofninn stækkaði hóf hann að marséra vestur á bóginn og birtist brátt við strendur Norður-Noregs og hefur á síðustu árum verið að færa sig með ströndum Norður-Noregs vestur á bóginn og svo suður og mér skilst að hann sé núna kominn langt suður í áttina að Lófóten. Það eru engar horfur á því að þessum krabba sé neitt að fækka. Norðmenn hafa sjálfir hafið veiðar á honum og jafnvel eldi nú á síðustu missirum vegna þess að hér er enn um mjög verðmæta afurð að ræða.

Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um hvort þessi krabbi gæti ekki borist hingað til Íslands, annaðhvort að menn tækju hann með sér í hugsunarleysi og hleyptu honum hér út, hentu honum í sjóinn þegar þeir kæmu upp að Íslandsströndum og krabbinn næði þá fótfestu hér á landgrunninu og gæti jafnvel byrjað að fjölga sér. Það mætti líka hugsa sér að lirfur þessa krabba mundu berast með skipum. Skip dæla oft sjó í tanka sína við strendur erlendra ríkja, losa sig síðan við hann þegar þau koma upp að ströndum hér á landi. Það má m.a. nefna dæmi um að nú í sumar fannst svokölluð sandrækja við Álftanes ef ég man rétt og vísindamenn telja að sú rækja hafi einmitt borist hingað með þessum hætti. Þetta er djúpsjávarrækja sem er ættuð sunnar úr Atlantshafi og er mjög algeng í Norðursjó. Mín spurning til hæstv. umhverfisráðherra er:

Hyggjast stjórnvöld grípa til einhverra fyrirbyggjandi aðgerða til að hindra að kóngakrabbi (Paralithodes camtschaticus) berist frá ströndum Noregs yfir í landhelgi Íslands?