132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Kóngakrabbi.

105. mál
[15:33]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Hér er verið að hreyfa alvarlegu máli. Spurt var sérstaklega um hvaða vinna hefði farið fram nú þegar af hálfu umhverfisráðuneytisins. Við höfum fyrst og fremst horft til reynslu Norðmanna í þessum efnum og stofnanir umhverfisráðuneytisins hafa fylgst mjög náið með þróuninni þar. Eins og ég nefndi áðan telur Náttúrufræðistofnun að lirfurnar séu ekki líkleg dreifingarleið þar sem þær dræpust væntanlega fljótt. Hins vegar er full ástæða til þess fyrir okkur að taka þessi mál alvarlega og stemma stigu við því að þetta kvikindi geti borist inn á hafsvæði okkar. Því hyggst ég, eins og ég lýsti áðan, taka þessi mál upp á vettvangi norrænu umhverfisráðherranna og einnig eiga samvinnu við sjávarútvegsráðherra um þau og upplýsa sjómenn og farmenn um þann skaða sem krabbinn getur valdið. Ég tel því að þar með sé brugðist við þessum vanda af ábyrgð.