132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Kadmínmengun í Arnarfirði.

106. mál
[15:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Enn og aftur kem ég upp í ræðustól til að bera fram skrýtnar spurningar til hæstv. umhverfisráðherra. Nú er það kadmín sem um er að ræða. Kadmín, hvað er það? Jú, þetta er þungmálmur sem finnst í náttúrunni.

Málavextir eru þeir að veturinn 2001, nánar tiltekið í desember, voru veiðar á hörpudiski bannaðar í Arnarfirði og ástæða þess var sú að nokkrar prufur sem höfðu verið teknar sýndu fram á að mælst hafði of mikið af þungmálminum kadmín í holdi hörpudisksins. Hann var því talinn óhæfur til manneldis samkvæmt alþjóðlegum stöðlum þó að þessi gildi væru reyndar mjög lág. Þetta kom öllum mjög á óvart því að ekki var vitað til þess að neinn mengunarvaldur væri í Arnarfirði. Af einhverjum ástæðum mældist þrátt fyrir það óvenjumikið af þessum þungmálmi á þessum stað, í einum stærsta firði Vestfjarða.

Þetta vakti að sjálfsögðu verulega athygli á sínum tíma og varð auðvitað áfall fyrir atvinnulífið við Arnarfjörð því að veiðar á hörpudiski voru bannaðar. Seinna kom í ljós að of hátt magn af kadmíni mældist í holdi bláskeljar eða kræklings. Það leiddi til þess að mjög athyglisverðar og lofandi tilraunir sem voru hafnar á kræklingaeldi í Arnarfirði lögðust einnig af. Þetta hefur því orðið mikið áfall fyrir fólk sem býr við Arnarfjörð einkum og sér í lagi á Bíldudal.

Ég kom upp í ræðustól 18. febrúar árið 2004 og bar þá fram fyrirspurn til þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur, um rannsóknir á þessu fyrirbæri, þessari dularfullu mengun. Í svari hennar þá kom fram að fyrirhugað væri að fara út í ákveðin rannsóknarverkefni og veita í þau verkefni þó nokkrum milljónum króna. Mér sýnist í fljótu bragði að nota hafi átt eitthvað í kringum 14 milljónir til að rannsaka þessa mengun betur til að reyna að komast til botns í því hvað hér væri í raun og veru á ferðinni. Var um að ræða mengun af mannavöldum? Var um að ræða mengun af náttúrunnar hendi? Hversu útbreidd var þessi mengun? Er hægt að gera eitthvað til að koma í veg fyrir hana? Gat jafnvel verið um að ræða einhvers konar mæliskekkju og misskilning frá upphafi? Ég hef síðan ekki heyrt neitt um þessar rannsóknir. Af einhverjum ástæðum hefur farið afskaplega lítið fyrir þeim þó að þetta mál hafi vakið mikla athygli eins og ég sagði áðan.

Ég vil því spyrja hæstv. umhverfisráðherra að því hvað hefur verið gert til að kanna ástæður og útbreiðslu þessarar mengunar og hvort umhverfisráðuneytið hyggist beita sér fyrir frekari rannsóknum á henni.