132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Kadmínmengun í Arnarfirði.

106. mál
[15:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni því að í svari hæstv. umhverfisráðherra Sivjar Friðleifsdóttur til mín í febrúar árið 2004 kom fram að þessu verkefni ætti að ljúka fyrri hluta árs 2005. Fyrri hluta þessa árs átti að ljúka því verkefni sem styrkt var með 2,5 millj. kr. en nú er talað um að því verði ekki lokið fyrr en einhvern tíma á næsta ári.

Það kom líka fram í svari frá hæstv. umhverfisráðherra á sínum tíma að fyrir lægi umsókn frá sérfræðingi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins um styrk til rannsóknarverkefnis sem hét upptaka ólífrænna snefilefna í lífverum við Norðvesturland. Hér var kostnaðarramminn áætlaður 12 millj. kr. en það er augljóst af svarinu að þessari umsókn hefur hreinlega verið hafnað. Það er mjög slæmt mál. Þetta er náttúrlega enn eitt dæmi þess að hér á landi eru hafrannsóknir og rannsóknir á vistfræði í hafinu umhverfis Ísland eru meira og minna í lamasessi og hafa verið um margra ára skeið. Kæruleysið veður uppi og stjórnvöldum er nákvæmlega sama hvað verður um þessar litlu sjávarbyggðir. Framtíð þeirra er gersamlega látin reka á reiðanum.

Um er að ræða mjög mikilvægar rannsóknir á fyrirbæri sem fæstir skilja ef þá nokkur maður. Rannsóknir á mengun sem hefur áhrif á lífsafkomu heils byggðarlags, fjölda fólks, og ríkisstjórninni virðist vera nákvæmlega sama. Þetta er gersamlega ólíðandi. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að setja peninga í að rannsaka þetta, athuga hvað er hér á ferðinni? Hvers vegna fáum við slíka mengun upp á einu hreinasta hafsvæði heims?