132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Kadmínmengun í Arnarfirði.

106. mál
[15:44]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Þetta virðist nokkuð undarleg umræða. Það er bara svo að hv. þingmenn verða að hafa þolinmæði til að bíða eftir niðurstöðum rannsókna. Ég hef svarað því hér að fjármunir hafi verið veittir í þetta verkefni bæði á árinu 2004 og til framhaldsrannsókna árið 2005. Það er ekki um annað að ræða en að bíða þolinmóður eftir niðurstöðum af þeim. Við getum ekki verið með svipuna á bakinu á vísindamönnunum.

Ástæðurnar fyrir því að styrkur kadmíns er hár í lífríki við Ísland eru ekki þekktar. Rannsóknirnar eiga m.a. að svara því. Talið er að skýringa sé að leita í náttúrulegum aðstæðum fremur en mengunar af mannavöldum, enda eru engar þekktar uppsprettur kadmínmengunar hér á landi. Ég bið hv. þingmenn um að hafa biðlund til að bíða eftir niðurstöðum þessara rannsókna sem þegar eru í gangi.