132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Vöktun vegna teknesíum-99 í hafinu.

175. mál
[15:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég legg fyrirspurn fyrir hæstv. umhverfisráðherra um vöktun vegna teknesíum-99 í hafinu umhverfis Ísland. Segja má að fyrirspurn mín sé í framhaldi af fyrri fyrirspurnum mínum um málið. Um leið og ég komst á Alþingi ákvað ég að reyna að sinna þessu máli, sem ég held að skipti okkur öll verulega miklu máli. Ég lagði fyrir Siv Friðleifsdóttur, þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, fyrirspurn árið 1999 um þetta mál. Hún svaraði á yfirgripsmikinn hátt og deildi áhyggjum okkar allra þingmanna.

Teknesíum-99 er geislavirkt efni sem lendir í hafinu vegna losunar frá kjarnorkuendurvinnslustöðvunum í Dounreay og Sellafield. Við höfum orðið vör við það núna og fengið af því fréttir nýverið að aukin geislavirkni mælist í sjó við Ísland. Þannig komu fréttir af því þann 4. nóvember síðastliðinn í Ríkisútvarpinu að sýni sem tekið var út af Látrabjargi í febrúar á þessu ári hefði sýnt tvisvar til þrisvar sinnum hærra gildi geislavirka efnisins teknesíum-99, tvisvar til þrisvar sinnum hærra gildi en áður hafði mælst. Reyndar tekur Sigurður Emil Pálsson, sviðsstjóri vöktunar- og viðbúnaðarsviðs Geislavarna ríkisins, það fram í fréttinni að þetta sé verulega lítið magn og langt innan við viðmiðunarmörk. Hann bendir okkur hins vegar á að sérhver mengun sjávar með manngerðum geislavirkum efnum geti haft gríðarleg áhrif, m.a. á markað okkar fyrir fiskafurðir.

Í fréttinni kom einnig fram að Geislavarnir þurfi að gefa út vottorð til þeirra fiskútflytjenda sem þess óska og í þeim vottorðum sé getið um nýjustu niðurstöður mælinga á þessu efni. Bara þessi frétt getur valdið útflutningi okkar verulegum erfiðleikum.

Í svari Sivjar Friðleifsdóttur til mín árið 1999 sagði hún að tekin hefði verið ákvörðun um að hefja þessa vöktun sem nú er að skila þeim mælingum sem við fáum fréttir af. Ég spyr hæstv. ráðherra hvaða niðurstöður liggi fyrir úr því verkefni og sömuleiðis hvort henni sé kunnugt um hvað líði áformum breska stjórnvalda um að takmarka losun teknesíum-99 frá kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield. Ég spyr hana líka hvort rannsókn á óhappi því sem varð í kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield fyrr á þessu ári sé lokið. Ef svo er, hverjar eru þá niðurstöður rannsóknarinnar? Svo spyr ég hvort ráðherra sé kunnugt um áætlanir Breta um að loka kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Dounreay árið 2006. Áætlanir voru um að loka henni á næsta ári og lokaspurningin mín varðar áform um aukinn þrýsting á bresk yfirvöld vegna losunar teknesíum-99.