132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Vöktun vegna teknesíum-99 í hafinu.

175. mál
[15:53]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra heldur vel vöku sinni vegna þessa alvarlega máls, vegna mengunar frá Sellafield. Teknesíum-99 mengun hefur borist frá þeirri kjarnorkuendurvinnslustöð í hafið, en það er geislavirkt efni.

Ég hef fylgst með vinnu hóps sem er frá Lófóten, „Lofoten mot Sellafield“ sem hefur unnið að því að berjast gegn þessari mengun. Á fundi með þeim í febrúar kom einmitt fram það sem hæstv. ráðherra sagði, að menn teldu sig hafa fundið aðferð til að geyma þetta efni þannig að það fari ekki í hafið. Ég tel fulla ástæðu til að vel sé fylgst með því að svo sé.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi heyrt af áformum Svía um að flytja kjarnorkuúrgang til Sellafield frá Eystrasaltssvæðinu. Það komu fram upplýsingar á fundi umhverfisnefndar Norðurlandaráðs í sumar um áform um slíkt. Ég tel að við þurfum að vera vakandi fyrir því ef Norðurlandaþjóðir, sem við stöndum saman með, (Forseti hringir.) hyggjast flytja kjarnorkuúrgang á og um okkar hafsvæði.