132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Vöktun vegna teknesíum-99 í hafinu.

175. mál
[15:59]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Það er ljóst að hér á Alþingi erum við sammála um að þetta eru alvarleg mál sem við erum að fjalla um. Þess vegna er mikilvægt að við höldum vöku okkar. Það höfum við gert í gegnum tíðina og beitt okkur á alþjóðlegum vettvangi, bæði með hinum Norðurlöndunum og annars staðar, til að þrýsta á bresk stjórnvöld um umbætur.

Ég vil sérstaklega nefna það að í kjölfarið á slysinu í Sellafield í vor settu bresk stjórnvöld af stað rannsókn. Þeirri rannsókn er ekki lokið þótt rekið hafi verið eftir henni, m.a. í Bretlandi því að menn bíða að sjálfsögðu eftir niðurstöðunum þar og hafa áhyggjur af þessu máli. Á sama tíma hafa Bretar uppi áform um frekari orkuvinnslu með kjarnorku. Það eru auðvitað brennandi mál þar heima fyrir. Ljósasta dæmið um það voru fréttir í sumar eða haust þegar The Independent sló upp frétt um að í Sellafield hefði verið í gangi heilmikill slóðaskapur af hálfu breskra stjórnvalda.

Ég deili því sannarlega með þingmönnum sem hér hafa tekið til máls að þarna er um alvarleg mál að ræða. Ég hef lagt mig fram um að halda vöku okkar Íslendinga í þessum málum gagnvart endurvinnslustöðinni í Sellafield og mun gera það áfram.