132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Jörðin Saurbær í Eyjafjarðarsveit.

108. mál
[18:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir svarið og hvernig málið hefur þróast, vonandi í rétta átt, og þær upplýsingar sem hér hafa komið fram, sem sumar hverjar voru nýjar fyrir mér. Ég vissi t.d. ekki að Ríkiskaup væru búin að verðmeta jörðina á 19 millj. kr. Það er svo auðvitað spurning hvernig verðmat á þessari jörð er fengið. En vegna þess sem hæstv. landbúnaðarráðherra lýsti hér áðan þá segi ég fyrir mitt leyti þegar hann talar um að gefa jarðir og hann hafi verið gagnrýndur fyrir það, að ég kannast ekki við það frá minni hálfu. En ég horfi þó svolítið öðruvísi á málið eins og í þessu tilviki þegar um er að ræða sveitarstjórn sem er með metnaðarfullar hugmyndir um uppbyggingu á svæðinu til að efla byggð og efla ferðamannaþjónustu, sem er mjög mikil í þessari sveit. Ég óttast því miður að þarna sé verið að verðleggja jörðina of hátt. Ég vil hins vegar segja það, virðulegi forseti, að ég hef fulla trú á því að ef hæstv. landbúnaðarráðherra og sveitarstjórn Eyjafjarðar settust niður þá næðu þessir aðilar samkomulagi um verð sem hægt væri að sætta sig við, miðað við hvernig þetta allt hefur gengið fyrir sig. Vegna þess, eins og ég sagði áðan, að um er að ræða sveitarstjórn sem ætlar að byggja upp menningartengda ferðaþjónustu en vantar húsnæðið sem þarna er, sem sumt er mjög lélegt, þá hef ég smáfyrirvara á þessu verðmati og veit ekki hvernig Ríkiskaup meta þetta.

Virðulegi forseti. Ég segi það eitt í lokin að ég óska þess að hæstv. landbúnaðarráðherra af sínum dugnaði og krafti nái lendingu í þessu máli í sátt og samlyndi við sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar og það geti orðið okkur öllum sem og sveitarfélaginu og menningartengdri ferðaþjónustu í þeirri ágætu sveit til framdráttar.