132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Jörðin Saurbær í Eyjafjarðarsveit.

108. mál
[18:24]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni orð hans og hans traust. Það er rétt að þetta er glæsilegur staður. Ég hef komið í safnið sem hann minntist á í Sólgarði, safn Sverris Hermannssonar trésmiðs. Er einkar skemmtilegt að sjá hvernig einn maður hefur haldið utan um svo margt sem skipti máli á áratugum síðustu aldar, og verið mikill reglumaður. Þetta er glæsilegt safn. Þessi staður verður glæsilegur fyrir ferðamannaþjónustu og umferð. Það var stórmál að marka hinni merkilegu kirkju í Saurbæ sinn stað, staðsetja útivist og stað fyrir skógræktarfólk Eyjafjarðar, að það fengi viðbótarland til útivistar. Við höfum orðið við þessu öllu. Síðan hef ég átt þetta góða samstarf sem ég tel að við höfum átt með sveitarstjórninni. Málið snýst um mat Ríkiskaupa, það mat er stundum gagnrýnt, bæði af bændum og sveitarfélögum. Þeir koma með skýr rök og stundum er orðið við þeim ef allir eru sammála um að rökin eigi við og byggi á staðreyndum. Það er auðvitað farið yfir það. Þetta verður að vera mjög skýrt, bæði út frá einstaklingum og sveitarfélögum sem eiga kaupréttinn, að jafnræðis sé gætt, jafnræðis milli einstaklinganna og jafnræðis milli sveitarfélaganna. Ég veit að ég og hv. þingmaður erum sammála um það. (Gripið fram í.) Við skulum sjá hvað haustið og næsta ár bera í skauti sér og hvort ekki verður niðurstaða í þessu máli. Ég vona það sannarlega.