132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Garðyrkjumenntun að Reykjum í Ölfusi.

132. mál
[18:30]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr um áform ráðherra um garðyrkjumenntun á Reykjum í Ölfusi. Í lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, er kveðið á um að stjórn Landbúnaðarháskóla Íslands sé falin háskólaráði og rektor. Þá segir að háskólaráð marki stefnu í kennslu og rannsóknum á móti skipulagi skólans. Rektor er formaður háskólaráðs. Það sem af er þessu fyrsta starfsári háskólans hefur allur þróttur farið í að koma stofnuninni á laggirnar, ákveða innra skipulag, endurskipuleggja kennslu og ná tökum á fjármálum stofnunarinnar. Hv. þingmenn minnast þess að Reykir komu inn í sameininguna á síðari stigum að eigin ósk þegar verið var að sameina Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.

Í nýju námsskipulagi skólans er kennsla skipulögð þvert á einstakar námsbrautir. Með því opnast leiðir til að tryggja tilvist fámennra námsbrauta sem ekki væri hægt í aðskildum stofnunum. Í þessu nýja námsskipulagi er hugað sérstaklega að garðyrkju og skyldum greinum og innan skólans er nú starfandi vinnuhópur til að vinna að því að lyfta núverandi diplómanámi í garðyrkju og skyldum greinum á stig BS-gráðu og festa þannig í sessi þá vísa að háskólanámi sem komnir voru á á Reykjum fyrir sameininguna. Hvað starfsmenntanámið varðar eru ekki áform um annað en að reka áfram þær starfsmenntabrautir sem starfræktar eru á Reykjum en vinna er hafin í öðrum starfshópi við endurskoðun á öllu starfsmenntanámi skólans og endurmenntunarframboði.

Það skal tekið fram að þessi endurskoðun er unnin í miklu samstarfi við atvinnulífið. Ekkert hefur verið slakað á varðandi kennslu og rannsóknir á Reykjum og þeir nemendur sem þar stunduðu nám við stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands munu ljúka námi þar samkvæmt því skipulagi sem fyrir var.

Hvað varðar síðari spurninguna, þ.e. hver séu áform ráðherra varðandi endurbætur og uppbyggingu við húsnæði skólans að Reykjum þá vil ég segja þetta: Fram undan er stefnumótun varðandi ytra skipulag og uppbyggingu húsnæðis. Landbúnaðarháskóli Íslands hefur nú starfsstöðvar á sex stöðum: Á Hvanneyri, á Hesti í Borgarfirði, á Möðruvöllum í Eyjafirði, á Reykjum í Ölfusi, á Stóra-Ármóti í Hraungerðishreppi og á Keldnaholti í Reykjavík.

Það liggur fyrir að þau áform sem uppi voru um uppbyggingu á Reykjum hafa því miður dregist. Í fyrsta lagi vegna þess að hinir nýju stjórnendur skólans, háskólaráðið og rektor, þurfa svigrúm til þess að átta sig á því hvað þarf að byggja. Nauðsynlegt var að fara í þarfagreiningu í því sambandi. Í öðru lagi hefur dregist að selja þær jarðeignir sem ætlunin var að selja til að fjármagna uppbyggingu á Reykjum og ég ræddi um á sínum tíma. Það liggur í augum uppi að það er að mörgu að hyggja í þessu sambandi. Hér er auðvitað um að ræða langtímaverkefni en ég tel mjög mikilvægt að eyða allri óvissu hvað varðar Reyki í Ölfusi sem allra fyrst vegna nemenda og kennara og byggðarlagsins. Ég veit að Garðyrkjuskólinn á merka sögu og hefur gegnt mikilvægu hlutverki í landinu í áratugi. Þess vegna þarf hlutverk Reykja í framtíðinni að liggja fyrir sem allra fyrst innan hins nýja Landbúnaðarháskóla Íslands. Það er auðvitað skylda mín að herða á þeirri vinnu í landbúnaðarráðuneytinu, innan háskólaráðs og með stjórnendum skólans og það mun ég gera.