132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Garðyrkjumenntun að Reykjum í Ölfusi.

132. mál
[18:34]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ósköp voru þetta fátækleg svör hjá hæstv. ráðherra og nánast engin, hann er eiginlega kominn aftur fyrir sig í umræðunni sem fór fram þegar verið var að sameina skólana. Ég tel að það sé mjög bagalegt.

Um eitt atriði í þessu sambandi vil ég spyrja ráðherra. Nú er ljóst og var vitað að þegar þessar þrjár stofnanir yrðu sameinaðar þá mundi þurfa nokkurt fjármagn til þess að halda starfseminni úti af fullum krafti og einnig til þess að greiða upp skuldir sem höfðu safnast fyrir. Það liggur fyrir að hin nýja stofnun er með verulegan skuldabagga frá fyrri stofnunum og skortir auk þess rekstrarfé og sú staða held ég að sé hvað alvarlegust fyrir starfsemi Garðyrkjuskólans á stöðinni á Reykjum í Ölfusi og reyndar fyrir alla stofnunina í heild. Ég spyr því ráðherra hvers vegna hann taki ekki nú þegar (Forseti hringir.) á fjárhagsvanda stofnunarinnar þannig að (Forseti hringir.) hún þurfi ekki að vandræðast með uppsafnaðan halla.