132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Garðyrkjumenntun að Reykjum í Ölfusi.

132. mál
[18:35]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra talaði um í ræðu sinni að nauðsynlegt væri að eyða óvissu um örlög Garðyrkjuskólans á Reykjum. Ég er þess fullviss að þegar fram kom ósk frá aðstandendum skólans um að sameinast Landbúnaðarháskóla Íslands þá voru þeir aðilar vissir um að skólinn yrði rekinn áfram á Reykjum og töldu það fullvíst í ljósi þeirra yfirlýsinga sem raktar voru hér áðan af hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og því sem hæstv. landbúnaðarráðherra lýsti ítrekað fyrir Sunnlendingum rétt fyrir kosningar. Ég tel það undarlegt og að í raun sé verið að koma aftan að Sunnlendingum ef sú er raunin að staða Reykja sé jafnóviss og hér hefur komið fram og tel að svo þurfi alls ekki að vera.