132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Garðyrkjumenntun að Reykjum í Ölfusi.

132. mál
[18:39]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Allt er þetta landbúnaður og meira að segja fallegur landbúnaður og bændur eiga tvo fulltrúa í háskólaráði sem þeir hafa skipað. Miðað við stöðuna hefði auðvitað mátt segja að þeir ættu að skoða það vel að hafa þar mann sem akkúrat þekkti vel til á Reykjum, en þetta var þeirra niðurstaða.

Ég held því fram að þessari menntun sé vel borgið í háskólaráði bæði af þeim fulltrúum sem koma frá Bændasamtökunum og ekkert síður af þeim fulltrúa sem ég á þar og vegna mikils áhuga háskólaráðs á þessu námi.

Hv. þm. Jón Bjarnason kom að kjarna málsins eins og oft áður enda gamall skólastjóri og mikilhæfur í því starfi og væri auðvitað betra að hafa hann þar enn þá að störfum. Það er vont, hvort sem það er einstaklingur eða fyrirtæki, að burðast með miklar skuldir og erfiða fjárhagsstöðu. Ég er honum alveg sammála um að það. Í mínum huga er stórverkefni að bæta úr því og þessa dagana er verið að reyna að finna lausn á því hvað landbúnaðarháskólann varðar og ég vona að fjárlögin beri það með sér á þessu hausti að það hafi tekist. Ef við náum saman um það verkefni í þinginu þá er ein óvissa og ein vandræði úr sögunni og að því er unnið.

Það hefur allt komið fram sem skiptir máli. Mín afstaða er í sjálfu sér óbreytt. Ég harma auðvitað hversu þetta hefur dregist en ég bið fólk um að ala ekki á óvissu eða umræðu um að verið sé að leggja Reyki niður því að allt annað er á borðinu eins og ég hef farið hér yfir. Ég vona að niðurstaða um framtíðarskipulag muni liggja fyrir sem allra fyrst og uppbygging að Reykjum geti þá hafist.