132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

203. mál
[18:43]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hvað þessa fyrirspurn varðar vil ég segja að í frumvarpinu um lánasjóðinn sem varð að lögum í vor er gert ráð fyrir að söluandvirði Lánasjóðs landbúnaðarins rynni til styrkingar á Lífeyrissjóði bænda. Margvísleg rök eru fyrir þeirri ráðstöfun og fór þingið vel yfir þau síðastliðið vor. Ég fól einkavæðingarnefnd að annast sölu sjóðsins og því er ferlinu lokið. Þrír aðilar buðu í sjóðinn og bauð Landsbanki Íslands hæst, en hann kaupir skuldabréfasafnið á 2 milljarða 653 millj. ásamt yfirtöku á skuldbindingum sjóðsins.

Við undirskrift kaupsamninga kom það fram hjá Landsbankamönnum að þeir hygðust lækka vexti til bænda frá því sem stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins hafði ákveðið að vaxtastigið mætti vera. En stjórn lánasjóðsins hafði hækkað vextina um sem nemur tekjum af búnaðarsjóðsgjaldi. Af þessu má vera ljóst að bændur landsins koma almennt mjög vel út úr þessari ráðstöfun. Ekki einungis liggur það fyrir að búnaðarsjóðsgjaldið lækki um 40% heldur munu bændur einnig njóta betri kjara en þeir ella hefðu notið. Það á líka við um samkeppni annarra banka sem hafa verið að bjóða bændum mjög góð kjör, þ.e. KB-banki, Íslandsbanki og einnig sparisjóðirnir, þannig að þarna hefur verið mikil þróun í gangi.

Þá má ekki gleyma því að hefði rekstri sjóðsins verið haldið áfram hefði fé hans brunnið upp á næstu árum og orðið að engu þannig að þetta var heppileg ráðstöfun.

Hæstv. forseti. Nú spyr hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson mig að því hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að þeir bændur sem eru í viðskiptum við lánasjóðinn við sölu hans þurfi að greiða 1,5% stimpilgjald til ríkissjóðs ef þeir flytja lán sín til nýrra eigenda sjóðsins, til annarra banka. Ég fæ ekki séð hvernig ég ætti að gera það né fæ ég skilið hvernig hv. þingmanni í rauninni dettur í hug að spyrja mig að þessu. Ætlast þingmaðurinn til að landbúnaðarráðherra hvetji menn til að brjóta lög landsins eða taka þau í sínar hendur? Gerir þingmaðurinn sér ekki grein fyrir því að frá því að bankarnir hófu að bjóða húsnæðislán á kjörum sem voru sambærileg við Íbúðalánasjóð hefur fjöldi fólks flutt húsnæðislán sín frá Íbúðalánasjóði yfir í bankana? Á þetta fólk þá ekki einnig rétt á því að fá niðurfelld stimpilgjöld af sínum lántökum?

Þetta hefur auðvitað oft verið í umræðunni. Vill þingmaðurinn að bændur njóti sérkjara umfram aðra landsmenn hvað þetta varðar? Einnig tel ég það víst að ef ég hygðist beita mér fyrir þessu væri ég að kom aftan kaupanda sjóðsins. Ef ég hefði verið búinn að fá þetta í gegn áður en sjóðurinn var seldur geri ég mér fyllilega grein fyrir því að það hefði haft veruleg áhrif á sölu sjóðsins og þar með skert verulega kaupverðið sem aftur hefði komið sér illa fyrir bændur. Kaupandinn vissi að hverju hann gekk og þannig er staða laganna í dag.

Ríkisstjórnin hefur stigið afar mikilvæg skref í að lækka skatta á þessu kjörtímabili. Þessar ákvarðanir endurspegla ákveðna forgangsröðun enda er svigrúm til skattalækkana ekki ótakmarkað. Það er hins vegar ljóst að frekari breytinga er þörf. Þar má nefna álagningu stimpilgjalda sem ég álít að sé barn síns tíma og get tekið undir það með hv. þingmanni sé hann þeirrar skoðunar. Mikilvægt er að taka þetta til heildarendurskoðunar sem hefur auðvitað verið rætt í stjórnarflokkum og ríkisstjórn. Sama gildir um álagningu vörugjalda og virðisaukaskatt á matvæli. Það er nauðsynlegt að endurskoða þessi gjöld þegar frekara svigrúm til skattalækkana skapast. Ég er tilbúinn til þess sem þingmaður og ráðherra í ríkisstjórn Íslands að skoða að álagning stimpilgjalda í heild sinni verði tekin til endurskoðunar.

Þá er ég einnig tilbúinn til að fara ofan í saumana á því hvers vegna einungis er veittur afsláttur af stimpilgjöldum þegar lánþegi er að skuldbreyta innan sömu lánastofnunar en þannig er það samkvæmt túlkun laganna eins og þau hafa verið framkvæmd, en ekki þegar hann er að flytja sig á milli lánastofnana, samanber lög um stimpilgjöld. En ég held að það hafi verið mikil farsæld yfir sölu lánasjóðsins, á hvað hann seldist, hvernig nýi eigandinn, Landsbanki Íslands, hefur bæði boðað lækkun og skuldbreytingu hjá bændum, lækkun vaxta og ég fagna auðvitað þeim mikla áhuga sem er hjá bankakerfinu til að þjóna sveitunum við þessar aðstæður. Þannig að þrátt fyrir að ég hafi stundum efast um að selja ætti lánasjóðinn þá sá ég ekki annað fært til að þetta fé brynni ekki upp. Nú verður það að miklu gagni inni í lífeyrissjóðnum og ég held að við getum öll fagnað þeirri niðurstöðu.