132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

203. mál
[18:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að það eigi eftir að koma á daginn að sala lánasjóðsins hafi verið mesta glapræði þegar bændur sem búa við erfiðustu lánsskilyrðin fara að fá afarkjörin frá bönkunum. En ég vil leyfa mér að spyrja ráðherrann hvers vegna sparisjóðirnir fengu ekki að bjóða, hvers vegna útboðsreglur voru settar með þeim hætti að sparisjóðirnir voru útilokaðir frá því að bjóða í lánasjóðinn.

Ég vil einnig spyrja: Er ráðherra kunnugt um eða þekkir hann til þess að upplýsingar um viðskiptastöðu viðskiptamanna lánasjóðsins voru orðnar aðgengilegar einstaklingum og bönkum óskyldum lánasjóðnum, KB-banki, Landsbanki, Sparisjóður Mýrasýslu og aðrir bankar virtust hafa undir höndum öll persónuleg viðskipti og persónulega stöðu manna við Lánasjóð landbúnaðarins og notað þær síðan þegar þeir fóru í heimsókn á bæi til að bjóða þar sérkjör eftir því sem þeir töldu. Er ráðherra kunnugt um að þetta mál hafi komið upp og ef svo er hvað hyggst hann gera eða hefur hann gert eitthvað í því?

(Forseti (DrH): Ég áminni hv. þingmann enn einu sinni að virða ræðutímann.)