132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

203. mál
[18:52]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hver einasti þingmaður sem situr á Alþingi getur haft áhrif á það að afnema stimpilgjöld af endurfjármögnun lána, bæði sá hv. þingmaður sem talaði á undan mér og ég sjálfur sem hér stend.

Ég skildi hæstv. landbúnaðarráðherra á þann hátt að bændur hefðu komið svo vel út úr sölunni á Lánasjóði landbúnaðarins að það þyrfti ekki að hafa miklar áhyggjur af því þótt þeir þyrftu að borga 1,5% af endurfjármögnun lána sinna í ríkissjóð. Ég er algerlega ósammála hæstv. landbúnaðarráðherra í þessu efni og átta mig ekki alveg á hvernig hann talar til bænda þessa lands.

Það sem var gott í svarinu og ræðunni var hinn eindregni vilji sem hæstv. ráðherra lýsti til þess að leggjast nú á árar með okkur hinum sem viljum afnema þennan skatt sem enginn skilur lengur og vona ég satt að segja að hæstv. ráðherra setji nú í gírinn og flýti þessu máli eins og hægt er því að eins og fram hefur komið þá vantar ekki mörg atkvæði til að koma málinu í höfn.