132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

203. mál
[18:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Hortugheitin í svari hæstv. landbúnaðarráðherra hljóta að koma eins og blaut tuska framan í þá bændur sem hér eiga hlut að máli. Að sjálfsögðu er verið að spyrja að því hvort hæstv. ráðherra ætli að beita sér fyrir lagabreytingu sem að þessu lýtur og það er alveg með ólíkindum hvernig hann bregst við því sjálfsagða réttlætismáli. Hérna er um að ræða sérstakt mál. Ef um það væri að ræða að verið væri að selja Íbúðalánasjóð þá ætti að sjálfsögðu hið sama við. Það er verið að beita þá bændur ranglæti sem þurfa að sæta því að greiða gjöldin gagnvart þeim lánastofnunum, vilji þeir færa sig yfir í aðrar lánastofnanir en ekki láta selja sig eins og sauði inn í tiltekinn banka við sölu stofnunarinnar, vilji þeir fá tilboð í sín lán og færa sig þá þurfa þeir að gjalda þess ójafnræðis gagnvart stofnuninni að greiða stimpilgjöld til ríkissjóðs. Eins og hv. 1. þm. Suðurkjördæmis nefndi þá er að sjálfsögðu verið að ræna bændur þeirri hýru sem þar er um að ræða.

Þess vegna hlýtur mörgum að bregða í brún við hortugheitin og þann undarlega málflutning sem hæstv. ráðherra hafði uppi í þessu sjálfsagða réttlætismáli þó svo hann hafi breitt yfir það með því að lýsa yfir vilja sínum til að leggja niður stimpilgjöld almennt, sem er hið besta mál. Hann hlýtur þá að koma með það mál fram í þinginu og berjast fyrir því að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því.