132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Styrkir til kúabænda.

230. mál
[18:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil beina eftirfarandi spurningu til hæstv. landbúnaðarráðherra:

Hve mikla beina styrki frá ríkissjóði fær hver af fimm stærstu kúabændum landsins til mjólkurframleiðslu árlega?

Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er ekki endilega sú að ég vilji vita nákvæmlega um hagi þeirra stærstu heldur miklu fremur hvert þetta styrkjakerfi er að þróast pólitískt séð. Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur sem viljum hag landbúnaðarins og hinna dreifðu byggða sem mestan að við áttum okkur á því hver þróunin er að verða í þessari atvinnugrein. Ég tel að það sé einnig mjög mikilvægt fyrir landbúnaðinn að hafa ákveðinn frið um styrkjakerfið og einn þátturinn í því er einmitt að ekki fari gríðarháir styrkir á hvert og eitt bú. Ég tel að ef menn fara að sjá kannski styrki upp á 50 millj. kr. til hvers og eins bús þá fari menn að setja spurningarmerki við það að svo háir styrkir fari til eins framleiðanda.

Ég tel að þetta sé áhyggjuefni og ákveðin pólitísk spurning sem hæsv. landbúnaðarráðherra verði að svara: Hvert er styrkjakerfið að þróast? Eins og staðan er nú er ekkert þak á styrkjakerfinu og það kom fram í umræðu um þingmál sem hv. þm. Jón Bjarnason flutti að hann vildi setja ákveðið þak á það. En hv. þingmaður og formaður landbúnaðarnefndar sagði að það væri algerlega ótímabært að ræða. En þess vegna tel ég að það sé mjög mikilvægt að fá það upp hverjir hæstu styrkirnir eru þannig að við getum í rauninni svarað þeirri spurningu, frú forseti, hver þróunin hefur orðið og hvort það sé tímabært að koma á þaki.

En við getum líka velt annarri spurningu fyrir okkur. Það er það að nú hafa ákveðnir aðilar ákveðið að hefja mjólkurframleiðslu í stórum stíl og um það mátti lesa í Bændablaðinu fyrir mánuði. Þeir hafa kosið að standa algerlega fyrir utan styrkjakerfi landbúnaðarins. Þeir segja að ef þeir ákveði að kaupa kvóta eða styrk þurfi þeir að verja öllum beingreiðslum sínum vegna kvótaaukningarinnar næstu 15 ár í afborganir. Ég segi fyrir mína parta að þetta styrktarkerfi í landbúnaðinum, þar sem ekkert þak er á beingreiðslum, þarf að ræða. Ég vil að hæstv. landbúnaðarráðherra svari ekki eingöngu því hve styrkirnir til hvers og eins bús eru háir heldur væri einnig mjög fróðlegt, ef tök eru á því, að fá viðhorf hans til þessarar þróunar.