132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Styrkir til kúabænda.

230. mál
[19:00]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson bar fram eftirfarandi spurningu: Hve mikla beina styrki frá ríkissjóði fær hver af fimm stærstu kúabændum landsins til mjólkurframleiðslu árlega?

Á verðlagsárinu 2004–2005 fengu fimm stærstu viðtakendur beingreiðslna í mjólkurframleiðslu eftirfarandi upphæðir: Sá fyrsti 32,6 millj., annar 19,4 millj., þriðji 19 millj., fjórði 16,3 millj. og sá fimmti 15,7 millj., alls 103 millj. Í einhverjum þessara tilfella, í flestum reyndar, er um að ræða félagsbú. Þeir framleiddu rúmar 2,7 millj. lítra sem eru um það bil 2,5% af heildarframleiðslunni sem samsvarar rúmum 38 kr. á hvern lítra. Ég vil taka það fram hér að meðalbúið á Íslandi er enn í dag ekki nema um það bil 130 þús. lítra bú sem gerir tæplega 500 þús. kr. í beingreiðslur á ári. Það eru einungis örfá bú með yfir 300 þús. lítra og séu þau stærri eru yfirleitt margir einstaklingar sem koma að slíkum rekstri samkvæmt ríkisreikningi. Fyrir árið 2004 námu heildarbeingreiðslur í mjólk rétt rúmum 4 milljörðum kr.

Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil hagræðing í framleiðslu á vinnslu mjólkur. Þessi hagræðing hefur m.a. komið fram í því að mjólkurframleiðendum hefur fækkað umtalsvert og búin stækkað. Á árinu 1990 voru mjólkurframleiðendur 1.558 talsins en á árinu 2004 voru þeir 854. Sama þróun hefur einnig átt sér stað í mjólkuriðnaðinum. Þar fækkaði mjólkurbúum á sama tímabili úr 16 í 9. Margir halda því fram að þessi þróun sé vegna frjáls framsals mjólkurkvótans og jafnframt þess vilja innan greinarinnar að ná betri árangri. Samhliða þessari þróun hefur afkoma greinarinnar í heild batnað. Hagur neytenda hefur einnig batnað. Sú staðreynd er því ánægjuleg að í þrjú ár hefur heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum ekki hækkað, ekki einu sinni fylgt verðlagsþróun. Þannig hafa íslenskir neytendur notið stuðningsins með beinum hætti. Stuðningurinn er auðvitað hugsaður sem hluti af tekjum bændanna og rennur síðan í hollri vöru og ódýrari inn á disk neytendanna og heldur vísitölunni niðri.

Áður en sá mjólkursamningur sem tók gildi þann 1. september sl. var gerður fór fram mikil úttektarvinna mjólkurnefndar um stefnumótun á mínum vegum í mjólkurframleiðslu en í nefndinni sátu fulltrúar bænda, stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Nefndin skilaði skýrslu um stöðumat og stefnumótun í mjólkurframleiðslu. Á grundvelli þessarar stefnumótunar var síðan undirritaður nýr mjólkursamningur. Vorið 2003 var gildistími hans frá 1. september 2005 og til ágústloka árið 2012. Alþingi samþykkti þennan samning á 130. löggjafarþingi án mótatkvæða. 43 sögðu já og enginn sagði nei, fjórir sátu hjá og aðrir voru fjarstaddir. Hv. þingmaður var meira að segja í hópi þeirra aðila sem samþykktu þennan nýja samning, þökk sé honum.

Markmið samningsins eru þessi:

1. Að almenn starfsskilyrði í framleiðslu á vinnslu mjólkurafurða og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði.

2. Að fjárhagslegur stuðningur ríkisins við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda.

3. Að viðhaldið verði þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar.

4. Að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni.

5. Að greinin geti þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og unnt sé að endurnýja framleiðsluaðstöðu með eðlilegum hætti.

6. Að gætt sé sjónarmiða um dýravelferð og heilnæmi afurða.

Það var m.a. skoðun mjólkurnefndar að nýr mjólkursamningur á þeim grunni sem lýst er hér að ofan verði vel til þess fallinn að tryggja hagsmuni neytenda og skattgreiðenda á sama tíma og stuðlað er að áframhaldandi uppbyggingu atvinnugreinarinnar. Það hefur verið skoðun margra að ekkert sé mikilvægara í dag en samkeppnishæfni búgreinanna, ekki síst í mjólkinni, við lækkandi tolla og aukið frelsi í innflutningi í framhaldi af þeim alþjóðlegu samningum sem nú eru í gangi í WTO-viðræðum.