132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Styrkir til kúabænda.

230. mál
[19:06]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Undir þeirri fyrirspurn sem hér hefur verið lögð fram af hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni eru örfá atriði sem ég vil koma inn á. Í fyrsta lagi það að beingreiðslurnar ganga frá ríkinu til viðkomandi bænda eða fyrirtækja sem stunda mjólkurframleiðslu. Það eru í mörgum tilfellum fyrirtæki, eins og hér kom fram. Þessi styrkur er í rauninni niðurgreiðsla og lækkun á vöruverði til neytenda. Við verðum að horfa þannig á það.

Við verðum að átta okkur á því líka að mjólkurframleiðslan og íslenskir bændur verða í auknum mæli að taka þátt í alþjóðasamkeppni. Verð lækkar, tollmúrar minnka og eru í sumum tilfellum fallnir niður og þess vegna verða íslenskir framleiðendur að geta búið sig undir samkeppnina. Það að setja þak á stærð búa er alveg fráleitt. Þau þurfa að stækka. Þau þurfa að fá að stækka og dafna til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. En okkar íslensku framleiðslubú eru mjög lítil á norrænan mælikvarða.