132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Styrkir til kúabænda.

230. mál
[19:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir svörin. Það er eflaust rétt hjá honum að ég samþykkti samninginn enda vil ég hag bænda sem mestan. Þess vegna tel ég, út frá þeirri forsendu að ég vilji hag bænda sem mestan, að það sé einmitt gott fyrir bændur að friður sé um styrkjakerfið sem við höfum í landbúnaðinum og þess vegna eigum við að hafa það. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra geri stuttlega grein fyrir því hvort hann sé ekki að einhverju leyti sama sinnis, hvort það sé endilega hagur bænda að einstaka bú geti safnað milljónum lítra í framleiðslurétt og síðan fengið 45 millj. í beingreiðslu eins og stefnir greinilega í samkvæmt svörum hæstv. ráðherra.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson nefndi það að hann vildi hafa ákveðið frelsi fyrir búin til að stækka. Ég get verið sammála honum um það en ég er ekki endilega viss um að skattgreiðendur eigi endalaust að greiða í samræmi við það hvað búin vilja stækka. Það getur ekki verið eðlilegt að menn fái marga tugi milljóna í beingreiðslur frá skattgreiðendum. Það gengur ekki. Það skiptir svo miklu máli í styrkjakerfi að sátt verði um það og liðurinn í því er einmitt að sett verði ákveðið þak. Þá er ég sannfærður um að það verður meiri almennur vilji skattgreiðenda til að peningar fari í styrkjakerfið.

Einnig hef ég vissar efasemdir um framkvæmdina. Vegna alþjóðlegra samninga sem skuldbinda þjóðina til að draga úr þessum framleiðslutengdu styrkjum munu ýmsir lenda í vandræðum þegar fram í sækir, þegar alþjóðaskuldbindingar munu leiða til þess að við þurfum að minnka þessa styrki um jafnvel allt að helming.