132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Stofnanir fyrir aldraða.

111. mál
[19:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra.

1. Hversu margir undir 67 ára aldri dvelja á stofnunum fyrir aldraða?

2. Eru á næsta fjárlagaári áætlanir um uppbyggingu deilda fyrir fólk með heilabilun?

3. Ef svo er, hvar er sú uppbygging fyrirhuguð?

Svo virðist, virðulegi forseti, sem þeim einstaklingum sem eru yngri en 67 ára og þjást af heilabilun sé að fjölga og ástandið víða um land orðið nokkuð alvarlegt og fer versnandi. Eftirspurn eftir úrræðum er a.m.k. orðin meiri en áður en varð vart við. Hverjar eru skýringarnar á því? Þær eru líklega ekki einfaldar en hluti er sá að fjölskylduformin hafa breyst frá því sem áður var og úrræði færri fyrir fólk sem þjáist yngra af þessum sjúkdómi.

Það er nánast engin sérhæfð þjónusta úti á landi fyrir þessa einstaklinga og það á við um bæði heilbrigðis- og félagslega þjónustu. Á mörgum hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu eru sérdeildir fyrir einstaklinga með heilabilun þar sem mögulegt er að skapa það umhverfi og þá ramma sem heilabilaðir þurfa að hafa eigi þeim að geta liðið sem best. En þörfin fyrir úrræði í dreifbýlinu er tilfinnanleg. Þar eru hvorki til sambýli fyrir fólk sem þjáist af heilabilun einhvers konar, dagdvalir né einhver hvíldarúrræði.

Eins og ég gat um er það að mestu landsbyggðin sem verður illa úti. Það gengur erfiðlega að útvega fólk í hvíldarinnlagnir á höfuðborgarsvæðinu fyrir fólk sem þjáist af heilabilun og býr úti á landi þar sem það á ekki lögheimili á höfuðborgarsvæðinu. Hjúkrunarheimilin á landsbyggðinni eiga oft erfitt með að taka á móti þessum hópi þar sem byggingarnar henta ekki, of fáir starfsmenn eru miðað við þá umönnun sem heilabilaður einstaklingur þarf og ekki er til staðar sérhæft starfsfólk í sumum tilfellum Auk þess er það fráleitt út af fyrir sig að vista einstakling sem þjáist ungur af heilabilun inni á stofnun fyrir aldraða einstaklinga sem þurfa annars konar þjónustu en hinir.

Stuðningur við fjölskyldur ungra með heilabilun er líka mjög af skornum skammti víða um land og einstaklingar með heilabilun eru nefnilega ekki allir aldraðir, heldur eru þeir líka í hópi yngri einstaklinga á vinnumarkaði. Þess vegna beini ég fyrirspurninni til hæstv. heilbrigðisráðherra til að fá að varpa ljósi á það um hve marga er að ræða og hvaða úrræði eru fyrirhuguð fyrir þennan hóp.