132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Stofnanir fyrir aldraða.

111. mál
[19:25]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið um þetta mál. Spurt var um vinnuhóp eða þá vinnu sem hefur verið framkvæmd í málinu. Við höfum unnið að því í ráðuneytinu, sá hópur sem hefur unnið að öldrunarmálum hjá okkur, m.a. er verið að fara yfir það hvernig þessi hópur kemur inn í svokallað RAI-mat. Ég vil taka það fram, eins og ég sagði áðan, að samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu eru öldrunarstofnanir skilgreindar sem sérstakur flokkur sjúkrahúsa fyrir aldraða og sjúklinga sem búið er að sjúkdómsgreina en þarfnast vistunar og meðferðar sem hægt er að veita utan almennra og sérhæfðra sjúkrahúsa.

Það er nokkuð útbreiddur misskilningur að óheimilt sé að vista fólk yngra en 67 ára á öldrunarstofnunum. Það er ekki rétt, öldrunin ræðst ekki fyrst og fremst af lifuðum árum heldur miklu frekar af heilsufari hvers og eins. Það er því miður svo að á hverjum tíma er stór hópur fólks, eða nokkur hópur fólks, sem verður fyrir ótímabærri öldrun vegna hörnunarsjúkdóma og þarf úrræði. Ég tel eðlilegt að sé um að ræða einstaklinga sem komnir eru um og yfir sextugt þegar þeir þurfa á varanlegri stofnanavistun að halda eigi þeir ekki síður að eiga aðgang að öldrunarstofnunum en þeir sem eru orðnir 67 ára. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að sérstök úrræði þurfa að vera við hæfi fyrir ungt fólk sem þarf á varanlegri hjúkrunarvist að halda vegna sjúkdóma eða slysa. Þessi úrræði eru til en þau þarf að auka.