132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Afsláttarkort vegna lækniskostnaðar.

152. mál
[19:30]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spyr þriggja spurninga um afsláttarkort vegna lækniskostnaðar:

„1. Hvaða aðgerða er þörf svo að afsláttarkort vegna lækniskostnaðar berist fólki sjálfkrafa þegar hámarksgreiðslum er náð?

2. Eru uppi áform um að Tryggingastofnun ríkisins taki upp slíkt kerfi?

3. Hvað mundi kosta að koma slíku kerfi á?“

Til þess að tryggja að almenningi berist svokallað afsláttarkort þegar hámarksgreiðslum er náð þurfa Tryggingastofnun að berast upplýsingar um greiðslu varðandi viðkomandi frá heilsugæslustöðvum, sérfræðilæknum, sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum þar sem greitt er fyrir læknisþjónustu. Það kallar á samtengingu stofnana og einstaklinga og kallar á breytingu á tölvukerfi Tryggingastofnunar ríkisins þannig að unnt verði að finna út hvenær einstaklingar hafi greitt tilskilda fjárhæð. Þetta kallar einnig á breytingar á tölvukerfum hjá þeim sem veita þjónustuna. Tryggingastofnun hefur hug á að gefa a.m.k. út kort án umsóknar þegar ljóst er að einstaklingar hafa greitt tilskilda upphæð fyrir sérfræðilæknishjálp og forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins hefur sagt að vonir væru bundnar við að kerfi af því tagi gæti komist í gagnið í byrjun næsta árs.

Hann sagði, með leyfi forseta:

„Þetta kostar í tölvumálum og við verðum að þrengja að okkur eins og við getum vegna þess að við höfum ekki peninga. En ég hef góðar vonir um að þetta takist núna.“

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins, sem við höfum aflað, yrði kostnaður stofnunarinnar um 21 millj. kr. við að taka upp nýtt tölvukerfi sem gerði rafræna afgreiðslu kortanna mögulega og eru kostnaðarútreikningar þessir miðaðir við fyrirliggjandi upplýsingar og ákveðnar forsendur eins og þær eru best þekktar. En það er ásetningur Tryggingastofnunar ríkisins að koma þessu kerfi á í byrjun næsta árs og ég vona að hún geti það innan þess fjárhagsdags sem stofnuninni verður væntanlega skorinn í fjárlögum ársins 2006.