132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Afsláttarkort vegna lækniskostnaðar.

152. mál
[19:35]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði fyrir að taka þetta upp á þinginu en það var einmitt sama atriðið og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kom hér inn á sem ég vildi minnast á. Ég varð vör við það áþreifanlega síðast í desember á síðasta ári þar sem ég þurfti að aðstoða þrjá sjúklinga sem voru svo óheppnir að greinast með krabbamein í byrjun desember. Það tekur u.þ.b. hálfan mánuð frá því að einstaklingur greinist með krabbamein þar til hann hefur náð hámarksupphæðinni.

En 1. janúar næsta ár þurftu þessir sömu einstaklingar að fara að safna upp punktum hjá Tryggingastofnun ríkisins til þess að fá afsláttarkort. Þetta er fyrirkomulag sem verður að kippa í liðinn. Í öllum þessum tilvikum var um að ræða aldraða þar sem þessi kostnaður var mjög íþyngjandi.