132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Afsláttarkort vegna lækniskostnaðar.

152. mál
[19:36]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hér er verið að ræða afskaplega mikilvægt mál varðandi afsláttarkortin frá Tryggingastofnun. Ég velti því þó fyrir mér, þegar ég sit hér úti í sal og hlusta á a umræðuna, af hverju verið er að tala um að gefa út kort þegar ákveðnu greiðsluhámarki er náð. Af hverju fá sjúkratryggðir einfaldlega ekki sent til sín kort, eins og maður fær á bensínstöðvum í dag og vildarkort hjá flugfélögum og slíkt, og síðan safnist bara rafrænt inn á þetta kort upplýsingar þegar menn greiða fyrir þjónustu? Kortið sjálft gefur þá upplýsingar þegar komið er að ákveðnu hámarki og þá kemur í ljós að það á að vera afsláttur.

Núna er þetta algjörlega óviðunandi kerfi vegna þess að ég er alveg sannfærður um að margir af þeim sem eiga rétt á þessum afslætti fá hann ekki vegna þess að það er ekki passað upp á að halda saman greiðslukvittunum frá þessum stofnunum.

Því langar mig að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til greina að hafa hlutina eins og nútíminn kallar á.