132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Sjúkraflutningar í Árnessýslu.

158. mál
[19:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir stuttu tóku heilbrigðisyfirvöld þá ákvörðun að fela Heilbrigðisstofnun Suðurlands að sjá um sjúkraflutninga á svæðinu frá og með næstu áramótum en sjúkraflutningarnir hafa verið í höndum lögreglunnar. Áður höfðu átt sér stað heima í héraði umræður þess efnis að Brunavarnir Árnessýslu tækju verkefnið að sér og virtist vera um það rík samstaða heimamanna, samanber ályktanir sem fram hafa komið frá nokkrum sveitarfélögum á svæðinu og í viðræðum mínum við löggæslumenn sem hafa séð um flutningana til þessa. Það virðist einnig vera skoðun þeirra að flutningarnir væru best komnir hjá Brunavörnum Árnessýslu sem voru tilbúnar til að taka verkefnið að sér.

Einhverjar viðræður áttu sér stað milli fulltrúa Brunavarna og heilbrigðisráðuneytis þó að því er virðist aldrei af neinni alvöru af hálfu ráðuneytisins. Ákvörðun um að færa flutningana yfir til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands var tekin og nú er unnið að undirbúningi þess og miklu skiptir að heilbrigðisráðuneytið standi þar vel að verki. Án efa mun Heilbrigðisstofnun Suðurlands sinna þessu verki vel en það kostar peninga, breytingar á húsnæði og mannafla.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur verið rekin með halla sem m.a. má rekja til langvarandi veikinda starfsmanna og sameiningar allra heilsugæslustofnana á svæðinu undir einn hatt. Fjárhæðir hafa fengist upp í þennan halla en hvergi nærri nóg og á þessu ári stefnir í hallarekstur. Ef halda á starfsemi Heilbrigðisstofnunarinnar óbreyttri verður nú þegar að bregðast við og það er algerlega ljóst að það þarf fjármagn til þess að gera þær breytingar sem til þarf á húsnæði og fjölgun starfskrafta og að öllum líkindum ekki minna fjármagn en Brunavarnir Árnessýslu töldu að þyrfti til sjúkraflutninga.

Það að taka yfir sjúkraflutningana má ekki bitna á annarri starfsemi Heilbrigðisstofnunarinnar og alls ekki ganga á þá fjármuni sem stofnunin hefur til annarra starfa enda er þar af minna en engu að taka. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hverjar eru ástæður þess að ekki var gengið til samninga við Brunavarnir Árnessýslu um að annast sjúkraflutninga í sýslunni?

2. Er það stefna ráðherra að fela heilbrigðisstofnunum á landinu að sjá um sjúkraflutningana?

3. Hver er áætlaður heildarkostnaður Heilbrigðisstofnunar Suðurlands vegna þessa verkefnis, sundurliðað á einstaka þætti þess og er tekið tillit til þeirrar íbúafjölgunar sem er á svæðinu vegna sumarbústaðabyggðar um hverja helgi allan ársins hring? Hefur verið gengið frá samningum við Heilbrigðisstofnunina um fjármögnun sjúkraflutninganna?