132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Sjúkraflutningar í Árnessýslu.

158. mál
[19:44]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um sjúkraflutninga í Árnessýslu.

„1. Hverjar eru ástæður þess að ekki var gengið til samninga við Brunavarnir Árnessýslu um að annast sjúkraflutninga?“

Um næstu áramót mun sýslumaðurinn á Selfossi hætta að sinna sjúkraflutningum á svæði Heilsugæslustöðvar Árnessýslu. Sýslumannsembættið á Selfossi og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hafa átt farsælt samstarf um sjúkraflutninga á svæðinu um árabil. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Brunavarnir Árnessýslu áttu viðræður fyrr á þessu ári um skipulag sjúkraflutninga og hvort mögulegt væri að Brunavarnir tækju að sér sjúkraflutninga á svæðinu. Reynslan sýnir að með samtvinnuðum verkefnum brunavarna og sjúkraflutninga hagnast báðir aðilar því að kostnaðarsamara er að reka verkefnin ein og sér. Niðurstaða viðræðna ráðuneytisins við Brunavarnir var sú að Brunavarnir treystu sér ekki til að taka að sér verkefnið fyrir þær fjárveitingar sem í boði voru eða þann ramma sem við höfðum til að setja í þetta mál.

„2. Er það stefna ráðherra að fela heilbrigðisstofnunum á landinu að sjá um sjúkraflutningana?“

Samkvæmt 19. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, eru sjúkraflutningar á ábyrgð heilsugæslustöðva. Víða um landið hefur heilsugæsla rekstrarlega umsjón með sjúkraflutningum. Í því sambandi nefni ég á svæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands heilsugæslustöðvarnar í Rangárþingi, í Vík og á Kirkjubæjarklaustri um sjúkraflutningana. Það má nefna Heilbrigðisstofnunina á Akranesi og Heilbrigðisstofnun Austurlands sem báðar sjá um rekstur sjúkraflutninga á sínum svæðum. Sjúkraflutningamenn eru heilbrigðisstarfsmenn sem fá starfsleyfi sem slíkir og lúta faglegri umsjón heilsugæslulækna.

Síðan er spurt:

„3. Hver er áætlaður heildarkostnaður Heilbrigðisstofnunar Suðurlands vegna þessa verkefnis, sundurliðað á einstaka þætti þess og er tekið tillit til þeirrar íbúafjölgunar sem er á svæðinu vegna sumarbústaðabyggðar? Hefur verið gengið frá samningum við Heilbrigðisstofnunina um fjármögnun sjúkraflutninganna?“

Greiðslur heilbrigðismálaráðuneytisins til sýslumannsins á Selfossi fyrir að sjá um sjúkraflutninga eru um 30 millj. kr. á ári. Í greiðslu ráðuneytisins til sýslumannsembættisins er tekið tillit til viðbótargreiðslna vegna fjölgunar sjúkraflutninga umfram fjölda í samningi.

Fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands verða hækkaðar til að unnt verði að sinna verkefninu. Áætlaður kostnaður Heilbrigðisstofnunar Suðurlands til sjúkraflutninga á svæðinu er 50 millj. kr. Þar hefur verið tekið tillit til íbúafjölgunar á svæðinu og fjölgunar í sjúkraflutningum. Meginhluti kostnaðarins er launakostnaður en hann er um 90% af heildarkostnaði.

Hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands er unnið að undirbúningi þessa mikilvæga verkefnis. Mikilvægt er að flutningur verkefnisins til stofnunarinnar gangi sem best. Það hefur verið auglýst eftir sjúkraflutningamönnum til stofnunarinnar og mér er kunnugt um að fjölmargar umsóknir hafa borist og m.a. frá fagfólki. Stofnunin vinnur að verkefninu í góðri samvinnu við lögregluna á Selfossi sem hefur unnið farsælt starf við að sinna sjúkraflutningum í Árnessýslu um árabil.

Ég vona að þessar upplýsingar svari spurningum hv. þingmanns.