132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Sjúkraflutningar í Árnessýslu.

158. mál
[19:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hann nefndi í upphafi að fram hefðu farið ákveðnar viðræður á milli Brunavarna Árnessýslu og heilbrigðisráðuneytis. Eftir þeim upplýsingum sem við fengum var þetta líklega einn fundur þar sem Brunavarnir lögðu fram skýrslu, óháða úttekt á því hver lágmarkskostnaðurinn yrði og var talað um 60 milljónir en tilboð ráðuneytisins var hins vegar 50 milljónir. Þar sem þeir voru ekki tilbúnir til að taka því á fyrsta fundi var viðræðum, sem nánast aldrei hófust, slitið.

Það er nákvæmlega þetta sem ég hef áhyggjur af, virðulegi forseti, þ.e. að þær 50 milljónir sem eiga að fara til sjúkraflutninganna muni hvergi nærri nægja og að Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem rekin er með halla, muni þurfa eða eiga að taka það af öðrum fjármunum sem ekki eru til heldur. Þess vegna eru þetta í raun varnaðarorð okkar til hæstv. ráðherra. Við þingmannahópur Suðurkjördæmis berum mikla umhyggju, ef má orða það svo, fyrir þeim heilbrigðisstofnunum sem reknar eru á okkar svæði. Við fylgjumst mjög vel með þeim rekstri og við viljum að staðið sé vel að verki og fólk á Suðurlandi sem og á Suðurnesjum og annars staðar búi við öryggi hvað varðar sjúkraflutninga en ekki síður varðandi þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er á svæðinu. Þess vegna má það ekki gerast að þarna muni eða skeiki 10–15 milljónum til eða frá sem ætti hugsanlega að taka úr rekstri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands til þess að geta staðið almennilega að sjúkraflutningum.