132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Aðgengi að hollum matvælum.

233. mál
[19:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Árið 2001 var samþykkt á Alþingi góð og gild heilbrigðisstefna sem ákveðnir hlutar voru síðan dregnir út úr sl. vor í þingsályktunartillögu sem var samþykkt hér, um aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Ég fagna því að sjálfsögðu og þeim áherslum því að þetta er gríðarlega gott mál og mjög mikilvægt átak sem hér á að ráðast í með stofnun faghóps á vegum forsætisráðherra sem settur var á laggirnar í síðustu viku. Ég vil, virðulegi forseti, taka aðeins út í fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra þetta holla mataræði sem leggja á áherslu á samkvæmt þeirri þingsályktun sem við samþykktum á Alþingi síðasta vor og aðgerðir til þess að bæta heilbrigði Íslendinga með hollara mataræði.

Á Íslandi er nokkuð gott framboð á hollri fæðu en því miður er sú vara allt of dýr, hvort sem hún er innflutt eða framleidd hér á landi. Matarpokinn úr verslun er því miður mun dýrari með ferska og holla vöru í pokanum heldur en tilbúna pakkavöru. Góð, holl vara er mjög dýr og það er miklu auðveldara að nálgast óholla vöru og úr því þarf að bæta.

Við eigum nokkur tæki sem hægt er að nota sem ég tel að við eigum að halda hátt á lofti í þessari umræðu. Í fyrsta lagi erum við með mjög háar niðurgreiðslur og styrki innlendrar framleiðslu. Ég er ekki hlynnt forsjárhyggju en engu að síður tel ég að við eigum að geta notað þessar háu niðurgreiðslur upp á 8–9 milljarða á ári til að ýta undir frekari framleiðslu hér á landi á hollari vöru umfram þá fituríkari, saltmeiri og sykurmeiri.

Virðulegi forseti. Við erum líka með hér á landi nokkuð mikil innflutningshöft og innflutningsgjöld á vörum. Ég tel að við eigum líka að geta notað þau til að hafa áhrif á verð á innfluttri hollri vöru. Við eigum að geta flokkað vöruna þannig að matvara sé, ef við tökum þá pólitísku ákvörðun, flokkuð í hollari og síðan aðra vöru. Hátt verð á hollum vörum hefur nefnilega mikil áhrif á aðgengi fólks að vörunni og til að ná þeim markmiðum heilbrigðisáætlunarinnar, ályktunarinnar frá því í vor, verðum við að gera þessa vöru aðgengilegri og þá þarf hún líka að vera ódýrari.