132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Aðgengi að hollum matvælum.

233. mál
[20:00]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög mikilvægt mál sem við erum að ræða hér og höfum verið að ræða í dag. Hæstv. ráðherra gerir að umtalsefni starfshóp forsætisráðherra sem á að koma með aðgerðir til að auka hollt mataræði og hreyfingu til að koma í veg fyrir allt það sem því fylgir að sinna því ekki. En hæstv. ráðherra hefði kannski átt að líta aðeins aftar í tímann því það hefur verið samþykkt opinber manneldis- og neyslustefna á Alþingi og flokkur hæstv. ráðherra stóð að því um tíma að halda úti slíkri stefnu. Í henni var gert ráð fyrir að hægt væri að stýra neyslu þjóðarinnar til hollustu t.d. með lægri verðlagningu á hollustuvörum. Þess vegna hefði ég viljað heyra hæstv. ráðherra lýsa yfir afstöðu sinni í þessum málum. En hann vildi ekki lýsa yfir afstöðu sinni til málsins vegna vinnu forsætisráðherra. Ég kalla eftir afstöðu ráðherrans þar sem það er þegar samþykkt á þingi að fara þessa leið.