132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Byggðakvóti fyrir Bíldudal.

229. mál
[20:15]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ástandið á Bíldudal er í hnotskurn það sem er á landsbyggðinni í litlum sjávarútvegsplássum. Menn sjá í dag ekki glóru í að stofna á þeim stöðum fyrirtæki í sjávarútvegi, í fiskvinnslu eða útgerð. Til að slíkt fyrirtæki geti komist á fæturna miðað við núverandi stöðu þarf að koma til stuðningur af svipuðu tagi og hæstv. ráðherra lýsti. En hann dugir ekki einu sinni til. Það er ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem menn ætla að setja byggðakvóta á þennan stað. Ætli það hafi ekki verið fimm fyrirtæki rekin í þessu sama húsi síðan árið 1992? Þau hafa fengið byggðakvóta árum saman. Kannski kemur enn eitt nýtt fyrirtæki núna. Spurningin er hvort það verði til frambúðar. Auðvitað vona menn það.

En umhugsunarefnið er þetta: Er það virkilega þannig að í sjávarútvegi á Íslandi sé ekki hægt að stofna fyrirtæki og reka það nema með aðgerðum af þessu tagi?