132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Byggðakvóti fyrir Bíldudal.

229. mál
[20:20]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði, þ.e. að byggðakvótinn einn dugir ekki. Hann er hins vegar mikilvæg forsenda. Ég rakti það áðan hvernig ég tel að úthlutun byggðakvótans muni auðvelda róðurinn við að bæta eða styrkja fjárhagslegan grundvöll þess fyrirtækis sem þarf að vera til staðar á Bíldudal. Það er alveg rétt.

Vandinn á undanförnum árum hefur ekki falist í að það hafi vantað byggðakvóta. Vandinn hefur verið sá að vantað hefur fjárhagslegar forsendur undir atvinnureksturinn. Það sem menn eru nú að reyna að gera er að styrkja fjárhagslegar forsendur til að byggðakvótinn, sem nú stendur til að úthluta, komi að fullum notum. Það er þýðingarmikið þegar menn vinna að þessu að þeir horfi til aðeins lengri tíma. Það er rétt sem hér hefur komið fram, m.a. í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, að menn þurfa að geta séð til lengri tíma varðandi byggðakvótann líka. Þær reglur sem búið er að útbúa núna gera einmitt ráð fyrir því að hægt verði að gera það. Þar eru efnislegar forsendur sem lagðar eru til grundvallar.

Ég tek undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni — þótt hann kunni mér kannski ekki miklar þakkir fyrir það — að menn eigi út af fyrir sig ekki að þakka fyrir byggðakvótann, menn eiga rétt á honum. Í fiskveiðistjórnarkerfinu eru búin til slík úrræði og menn eiga rétt á byggðakvótum við þær aðstæður sem uppi eru á Bíldudal. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og hann hitti þar naglann á höfuðið. Við þessar aðstæður eiga íbúar eins og á Bíldudal rétt á því að fá fiskveiðiréttinn með þeim hætti sem hér er lagt til.

Hv. þingmaður spurði hvað hefði tafið mig. Það er þannig, virðulegi forseti, að hér gilda ákveðnar reglur. Þær reglur hef ég virt. Þær gera ráð fyrir að heimamenn eigi aðkomu að málinu. Þeir skrifuðu okkur bréf fyrir rúmri viku og núna er verið að vinna úr því, alveg eins og ég rakti. Það stendur ekki til annað en að drífa í að úthluta þessum byggðakvóta jafnskjótt og hægt verður. Ég á ekki von á að það þurfi að taka langan tíma. Hv. þingmaður ætti því að spara sér kárínurnar um að ég hafi verið að tefja málið. Það hef ég ekki gert. Þetta mál hefur verið unnið mjög hratt eftir að það kom inn í ráðuneytið.