132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Togveiði á botnfiski á grunnslóð.

242. mál
[20:33]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hygg að síðasti ræðumaður hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann kom að rannsóknaþættinum. Því miður er það svo að veiðarfærarannsóknir hér við land hafa verið vanræktar allt of mikið undanfarna áratugi. Við höfum í raun og veru verið langt á eftir nágrannaþjóðunum í þeim efnum og það ber mjög að harma.

Þetta virðist því miður hafa komið okkur í koll því að nýlegar myndir sem Hafrannsóknastofnun hefur tekið, einmitt við suðurströndina, sýna að togveiðarfæri hafa valdið óbætanlegu tjóni á dýrmætum vistkerfum, kórallasvæðum, sem seint eða aldrei verður bætt. Það er því full ástæða til að skoða þessi mál með gagnrýnum hætti og fara vandlega yfir hvernig þessum reglum er háttað í dag, sérstaklega í ljósi þeirra nýju upplýsinga sem nú liggja fyrir.