132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Hreyfanleiki starfsfólks og þjónustu eftir stækkun ESB.

[10:34]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka þetta mál upp sem forseti nefndi og sem snýr að hreyfanleika starfsfólks og þjónustu eftir stækkun Evrópusambandsins og þar af leiðandi EES-samningsins til austurs. Útgangspunktur minn er skýrsla sem var gerð fyrir norrænu ráðherranefndina af Fafo-stofnuninni norsku. Í stuttu máli gerði stofnunin úttekt á reynslu Norðurlandanna af stækkun Evrópusambandsins til austurs þar sem öll löndin nema Svíþjóð voru með frestun á frelsi fólks til atvinnu í sínum löndum frá nýju aðildarlöndunum. Það er mikilvægt að hafa í huga í þessu sambandi að ástæðan fyrir því að fjórfrelsi er í EES-samningum og innri markaði ESB, þ.e. frelsi þjónustu, viðskipta, vöruviðskipta, vinnuafls og fjármagns, er til þess að auka velmegun í álfunni og styrkja þau þjóðfélög sem þar eru og auka kaupmátt og velmegun fólksins. Það gleymist stundum í umræðunni.

Hvað sem því líður eru helstu niðurstöðurnar þessar, virðulegi forseti: Það hefur ekki farið stór straumur atvinnuleitenda frá nýju löndunum til Vestur-Evrópu, en það er afgerandi munur á milli landa. Það eru engar tímabundnar takmarkanir í gildi gagnvart frjálsu flæði þjónustu og þar með útsendum starfsmönnum og einyrkjum sem taka að sér tímabundin verkefni.

Stærstur hluti aðflutnings starfsfólks til Norðurlandanna eftir stækkunina hefur verið í formi þjónustuinnflutnings og á Norðurlöndunum er furðulega mikill munur á aðflutningi starfsfólks frá nýju aðildarlöndunum eftir 1. maí 2004. Reynslan af hinum tímabundnu takmörkunum er mismunandi á Norðurlöndunum. Lágar tölur frá Svíþjóð benda til þess að hreyfanleiki starfsfólks sé mjög háður eftirspurn eftir vinnuafli. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að í Svíþjóð eru engar hömlur á frelsinu.

Í flestum löndunum virðist sem samspil milli tímabundinna takmarkana og vandræða í tengslum við launamál útsendra starfsmanna hafi leitt til staðkvæmdaráhrifa sem hafi beint eftirspurninni að þjónustuveitingu og óviljandi orðið til þess að skekkja samkeppnisstöðu milli mismunandi ráðningarforma og hreyfanleika á vinnumarkaðnum. Með öðrum orðum má færa full rök fyrir því með niðurstöðu þessarar skýrslu að frestun á frelsinu hafi orðið til þess að að ýta undir starfsemi starfsmannaleigna.

Meðvituð sniðganga reglna og kjarasamninga í frjálsu flæði þjónustu veldur vandkvæðum í öllum ríkjunum og tengist gráum svæðum milli ráðningarforma. Á heildina litið hefur aukið framboð á vinnu og þjónustu líklega haft jákvæð efnahagsleg áhrif og norrænu vinnumarkaðirnir hafa í aðalatriðum risið vel undir auknum fjölda erlends starfsfólks. Með því að fækka flöskuhálsum á ýmsum sviðum vinnumarkaðarins, minnka verðbólguþrýsting og auka framleiðslugetuna getur þessi þróun haft jákvæð áhrif á efnahagslífið og atvinnustig á Norðurlöndunum.

Þessi þróun hefur heldur ekki leitt til aukinna bótagreiðslna hins opinbera. Í öllum ríkjunum hefur pólitísk umræða farið fram um þessa þróun. Í Noregi hafa dæmi um misnotkun og gróflega undirborgun útsendra starfsmanna stuðlað að undirbúningi þess að gera ákvæði kjarasamninga að lögbundnum lágmarksákvæðum líkt og gildir á íslenskum vinnumarkaði. Ég vek athygli á þessu, virðulegi forseti, því að hér eru Norðmenn að fara þá leið sem við höfum verið með í gildi lengi til þess að vinna gegn ólöglegri — eða að menn fari á skjön við hlutina með starfsmannaleigum. Öll Norðurlöndin hafa gripið til aðgerða til að styrkja samvinnu milli deilda í skattkerfi, lögreglu, útlendingaeftirliti, vinnumálastofnunum og öðrum stofnunum sem að hluta til ná einnig til aðila vinnumarkaðarins.

Þetta eru helstu niðurstöðurnar, virðulegi forseti, og ég held að við Íslendingar höfum haft góða reynslu af því fólki sem hingað hefur komið. Við erum að vísu með lægra hlutfall en á öðrum Norðurlöndum. Þar sem við skerum okkur fyrst og fremst úr er að hér er hærra atvinnustig, þ.e. nær allir þeir aðilar sem hingað koma eru í vinnu og það er grunvallaratriði. En þessi skýrsla er merkileg og í kjölfar þessa vil ég spyrja hæstvirtan ráðherra tveggja spurninga:

1. Telur ráðherra í ljósi skýrslu Fafo til norrænu ráðherranefndarinnar ekki ástæðu til að hverfa frá höftum á frelsi vinnuafls hér á landi innan EES-svæðisins?

2. Telur ráðherra ekki margt benda til þess að frestun á innleiðingu frelsis vinnuafls hér á landi hafi ýtt undir starfsemi starfsmannaleigna?