132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Hreyfanleiki starfsfólks og þjónustu eftir stækkun ESB.

[10:40]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þessi mál til umræðu því nauðsynlegt er að málefni vinnumarkaðarins og þróunar hans séu til reglubundinnar umræðu á vettvangi Alþingis og í samfélaginu öllu.

Við hér á Íslandi verðum með hverju árinu sem líður í auknum mæli vör við áhrif alþjóðavæðingarinnar eins og aðrar þjóðir heims og aðgengi erlends vinnuafls hefur og mun hafa þýðingu á íslenskum vinnumarkaði. Okkur ber hins vegar skylda til að vera vel á verði og fylgjast grannt með framvindu mála. Eins og málshefjandi nefndi þá samþykkti Alþingi að nýta heimildir til aðgangstakmarkana fyrir átta af þeim tíu ríkjum sem bættust við Evrópska efnahagssvæðið þann 1. maí á síðasta ári. Þær takmarkanir gilda að óbreyttu til 1. maí á næsta ári. Þetta var gert með það að markmiði að stýra betur flæði erlends vinnuafls inn á íslenskan vinnumarkað en fyrirsjáanleg var mikil eftirspurn eftir vinnuafli vegna uppbyggingar, m.a. vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi og stórframkvæmda víðar.

Hæstv. forseti. Þessi ákvörðun var tekin í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins og var ekki síst í samræmi við viðhorf Alþýðusambands Íslands. Takmarkanirnar fólust í því að íslensk fyrirtæki sem þyrftu á erlendu vinnuafli að halda til að sinna hefðbundinni launavinnu sem ekki tækist að manna með innlendum starfskrafti þyrftu áfram að sækja um atvinnuleyfi líkt og gildir um ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins eða þriðju ríkisborgara eins og það gjarnan er nefnt.

Fyrst í stað gekk þetta vel og fyrirtækin héldu sig við hið þekkta form við að fá til sín erlendan starfskraft og stjórnvöld höfðu góðar upplýsingar um fjölda og kjör þeirra sem hingað komu til vinnu. Undanfarið hefur í auknum mæli borið á því að íslensk fyrirtæki eru að fá til sín starfsmenn með svonefndum þjónustusamningum, m.a. í gegnum erlendar starfsmannaleigur. Rök atvinnulífsins fyrir því að færa ráðningar á erlendu vinnuafli undir hatt þjónustusamninga meðan á aðgangastakmörkunum stendur hafa fyrst og fremst verið þau að það sé of tímafrekt að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi með þeim hætti sem lög okkar gera ráð fyrir. Við því hef ég brugðist og í samráði við dómsmálaráðherra breytt verklagi við útgáfu atvinnu- og dvalarleyfa svo nú tekur aðeins um tvær vikur að fá afgreitt atvinnuleyfi fyrir vinnuafl frá nýju aðildarlöndum Evrópska efnahagssvæðisins.

Það hefur þótt til fyrirmyndar hvernig íslenski vinnumarkaðurinn er skipulagður þar sem ákveðinn sveigjanleiki hefur verið ráðandi, framkvæmd kjarasamninga er á ábyrgð aðila vinnumarkaðarins og ágreiningsefni leyst með samningum en síður á grundvelli fyrirmæla í lögum eða reglugerðum. Þessu fyrirkomulagi tel ég mikilvægt að verði haldið. Ég tel farsælast að jafnan sé það þrautreynt af hálfu samningsaðila á vinnumarkaði að ná samkomulagi áður en skipulagsmál eða ágreiningur á vinnumarkaði er leystur með lagasetningu á Alþingi. En til þess að þetta fyrirkomulag reynist vel verður að höfða til samfélagslegrar ábyrgðar þeirra sem um þessi mál fjalla eins og ég raunar gerði í umræðum í sölum Alþingis í síðustu viku.

Hæstv. forseti. Þegar rætt er um að afnema hömlur á útgáfu atvinnuleyfa er nauðsynlegt að hafa í huga það fyrirkomulag sem nú er unnið eftir hér á landi, þ.e. að öll störf sem íslensk fyrirtæki hafa þörf fyrir að manna með erlendu vinnuafli komi fyrst til ráðstöfunar á innlendum vinnumarkaði í gegnum opinberu vinnumiðlunina þannig að þau standi atvinnulausum til boða. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og átt sinn þátt í því að halda atvinnuleysi hér á landi niðri en það er eitt allra mikilvægasta viðfangsefni okkar stjórnmálamannanna. Ísland hefur staðið sig mjög vel í alþjóðlegum samanburði hvað það varðar eins og við þekkjum.

Sú skýrsla sem hér hefur verið vitnað til og unnin var á vegum norrænu ráðherranefndarinnar með fullri þátttöku félagsmálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar er ágætt innlegg í umræðuna um þróun norræna vinnumarkaðarins eftir stækkun Evrópska efnahagssvæðisins. Þó að áhrif stækkunarinnar kunni að hafa verið ofmetin verður því að mínu mati ekki haldið fram að aðgangstakmarkanirnar sem við ákváðum, stjórnvöld og löggjafinn, hafi verið mistök. Það sem skýrslan segir okkur er að það sé fyrst og fremst eftirspurnin og uppgangurinn í atvinnulífi hvers lands sem ræður því hvert vinnuaflið flæðir en ekki regluverkið á hverjum stað. Það er að mínu mati rökrétt niðurstaða.

Skýrslan sýnir líka að vandamál varðandi ráðningar í formi þjónustusamninga hafa aukist í öllum fyrri aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og breytir þá engu hversu umfangsmiklar aðgangstakmarkanir hafa þar gilt. Hér er því alls ekki um neitt séríslenskt viðfangsefni að ræða eins og ég hef ítrekað lagt áherslu á.

Þá er nefnt í skýrslunni að skortur á tölfræðiupplýsingum og skráningum til að geta sagt betur fyrir um þróunina um flæði erlends vinnuafls inn á norræna vinnumarkaðinn sé tilfinnanlegur og úr því tel ég að þurfi að bæta.

Hæstv. forseti. Félagsmálaráðuneytið mun í samvinnu við utanríkisráðuneyti og hagsmunasamtök á vinnumarkaði greina stöðu þessa máls og móta tillögur að því sem mögulegt er og æskilegt að gera eftir 1. maí næstkomandi. Á vettvangi Evrópusambandsins hefur komið fram sú ósk að afstaða aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins til frekari aðlögunarreglna verði gerð skýr sem fyrst og að því mun ég stefna. Fulltrúar ráðuneytisins fylgjast vel með þróun mála hjá öðrum þjóðum, m.a. á vettvangi Evrópusambandsins þar sem menn byggja á áralangri reynslu á flæði vinnuafls milli landa. Af þeirri reynslu eigum við að sjálfsögðu að læra og hana munum við nýta okkur, hæstv. forseti.