132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Hreyfanleiki starfsfólks og þjónustu eftir stækkun ESB.

[10:56]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með þeim sem talaði hér á undan mér að það er í sjálfu sér ánægjulegt að heyra þessa jákvæðu Evróputóna frá þingmönnum sjálfstæðismanna og má kannski túlka þá sem Evrópudaður þeirra í kjölfar formanns- og forustuskipta í flokknum og því fagna ég mjög. (Gripið fram í.)

Hvað varðar umræðuna hér að öðru leyti má segja að fjöldi atvinnuleyfa segir ekki allt um stöðu mála hérlendis og gefur umrædd skýrsla að mörgu leyti villandi mynd af ástandinu. Þar koma að sjálfsögðu til sögunnar starfsmannaleigurnar og hin rétta mynd af málinu og réttarstaða þeirra starfsmanna sem í gegnum þær koma, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gat um áðan. Starfsmannaleigurnar eru alþjóðlegt vandamál. Það eru þær sem eru vandamálið. Það eru þær sem þarf að ná utan um. Það eru þær sem starfa á gráu svæði. Það eru þær sem eru notaðar til að níðast á réttindum starfsmanna og það eru þær sem eru notaðar sem skattaskjól fyrir gráðuga atvinnurekendur. Utan um starfsemi þeirra þarf að setja lög og utan um starfsemi þeirra og framferði þarf að ná. Það eru þær sem skapa blikur á lofti um að hér verði einhvern tíma franskt ástand í málefnum útlendinga vegna þess að þær eru notaðar til að níðast á útlendingum. Það er vandamálið og miklu stærra en það sem felst í frjálsri för verkafólks milli landa sem er almennt jákvætt mál. Starfsmannaleigurnar eru hins vegar aðför að siðuðu samfélagi. Þær eru aðför að okkar samfélagsgerð, velferðarkerfi og vinnumarkaði.

Til að nefna dæmi um þá ósvífni og meðferð sem oft tíðkast í skjóli starfsmannaleiganna hér á landi má nefna launakjör starfsmanna frá erlendri starfsmannaleigu upp á 30 þús. kr. á mánuði í erfiðisvinnu uppi á íslensku hálendi, 30 þús. kr. á mánuði. Dæmi nú hver sem vill um siðleysi slíkrar meðferðar á fólki. Þetta er að sjálfsögðu ekkert annað en mannréttindabrot, fyrir utan aðbúnaðinn sem þetta fólk þarf oft að búa við og er varla svínum sæmandi í mörgum tilfellum. (Gripið fram í.)