132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar 2004.

[11:02]
Hlusta

Sólveig Pétursdóttir (S):

Hæstv. forseti. Samkvæmt lögum um Ríkisendurskoðun ber henni að semja skýrslu um störf sín á liðnu almanaksári og leggja fyrir Alþingi.

Ársskýrslan fyrir síðasta ár var gefin út og birt í marsmánuði. Í henni er m.a. gerð grein fyrir starfsskyldum stofnunarinnar, starfsemi hennar á árinu 2004 og markmiðum með endurskoðun og leiðum á því sviði. Jafnframt er gerð grein fyrir þeim skýrslum, leiðbeiningarritum og greinargerðum sem stofnunin gaf út á árinu og fyrir starfi einstakra sviða stofnunarinnar. Þá eru í skýrslunni raktar ýmsar kennitölur um umsvif og árangur í störfum Ríkisendurskoðunar á árinu 2004. Loks er það nýmæli að finna í skýrslunni að þar er gerð nánari grein fyrir margvíslegum aðferðum sem starfsmenn hennar beita í daglegum störfum sínum.

Nokkur samdráttur varð í rekstri Ríkisendurskoðunar á árinu 2004. Ársverkum fækkaði um rúm tvö frá undangengnu ári og afköst drógust saman sem því nam. Fjárheimildir Ríkisendurskoðunar í fjárlögum og fjáraukalögum ársins 2004 námu alls 319 millj. kr. og hækkuðu um 12,3% frá árinu á undan. Innifalið í þessari fjárhæð er 15 millj. kr. framlag vegna halla á rekstri stofnunarinnar á árinu 2003. Rekstrarútgjöld Ríkisendurskoðunar að frádregnum tekjum af seldri þjónustu námu alls rúmum 302 millj. kr. á árinu 2004 og lækkuðu um 8% frá árinu 2003. Rekstur stofnunarinnar varð því 16,5 millj. kr. innan fjárheimilda ársins. Þær aðhaldsaðgerðir sem gripið var til í upphafi árs 2004 báru þannig tilætlaðan árangur en að vísu höfðu þær þau áhrif að nokkuð dró úr starfsemi og afköstum stofnunarinnar eins og ég greindi frá áðan.

Eins og samandreginn rekstrarreikningur sýnir var launakostnaður stofnunarinnar sá sami og árið 2003 eða samtals 259 millj. kr. Rekstrar- og stofnkostnaður lækkaði um 28 millj. kr. enda lauk að mestu leyti viðamiklum endurbótum á húsnæði stofnunarinnar á síðasta ári. Stærsti einstaki rekstrarkostnaðarliðurinn er aðkeypt sérfræðiþjónusta 14 endurskoðunarskrifstofa fyrir 29,7 millj. kr. Sértekjur stofnunarinnar lækkuðu og voru 3 millj. kr. minni en á árinu 2003.

Í árslok 2004 voru starfsmenn Ríkisendurskoðunar 49 talsins. Af fastráðnum starfsmönnum voru karlmenn 27 og konur 22 og hefur þeim fjölgað síðustu árin. Til dæmis voru þær aðeins þriðjungur starfsmanna í árslok 2001.

Alls áritaði Ríkisendurskoðun 357 ársreikninga og samdi 259 endurskoðunarskýrslur. Þessu til viðbótar sendi stofnunin frá sér 10 úttektir á síðasta ári auk skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings. Skýrslur þessar spanna býsna vítt svið. Flestar eru hefðbundnar stjórnsýsluúttektir en að auki eru tvær skýrslur á sviði umhverfisendurskoðunar.

Í skýrslum þessum er fjallað um einstakar stofnanir, svo sem Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Náttúrufræðistofnun Íslands, og gerð grein fyrir almennum viðfangsefnum, t.d. lyfjakostnaði landsmanna, háskólamenntun, skógrækt og viðbótarlaunum opinberra starfsmanna.

Þá var í tengslum við innra eftirlit lokið við fimm viðamiklar skýrslur á árinu 2004 tengdar nánar tilteknum stofnunum ríkisins. Eðli málsins samkvæmt eru skýrslur þessar líkt og skýrslur stofnunarinnar um fjárhagsendurskoðun aldrei gerðar opinberar enda varða þær oftar en ekki viðkvæm innri mál stofnana og fyrirtækja.

Ríkisendurskoðun hefur sett sér það markmið að endurskoða árlega allar stofnanir ríkisins auk þess að leggja áherslu á að votta upplýsingar um umsvif og rekstrarárangur sem stofnanir birta í ársskýrslum sínum. Í þessu sambandi skal þess getið að u.þ.b. helmingur stofnana ríkisins hefur tekið upp svokallaða árangursstjórn sem felur m.a. í sér að þær setja sér markmið til lengri eða skemmri tíma sem nota má sem viðmiðun þegar endanlegur árangur er metinn.

Við fjárhagsendurskoðun hefur Ríkisendurskoðun á undanförnum árum lagt áherslu á að kanna nokkur valin atriði í starfsemi stofnana og fyrirtækja ríkisins sem varða starfsmenn þeirra, aðföng, umsýslu með fé og innra eftirlit. Þessi atriði hafa verið mismunandi frá einu ári til annars, allt eftir mati á mikilvægi þeirra og áhættunni sem tengist þeim. Í grundvallaratriðum miðar athugunin sem slík þó ævinlega að því sama: Að auka aðhald í ríkisrekstri, bæta umhirðu með eignum og fjármunum hins opinbera og efla innra eftirlit stofnana ríkisins. Athugunin byggist á úrtaki innan allra þeirra stofnana sem endurskoðaðar eru og ætti þar af leiðandi að gefa nokkuð góða mynd af því hvernig þessum málum er almennt varið, bæði innan einstakra ríkisstofnana og fyrirtækja og ráðuneyta.

Við endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2003 var lögð sérstök áhersla á launakostnað, erlendan ferðakostnað, rafrænar greiðslur og loks á ytri staðfestingar á stöðu banka- og viðskiptareikninga. Gerð er grein fyrir niðurstöðum þessara athugana í kafla 2 í skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2003.

Verkefni Ríkisendurskoðunar við fjárhags- og stjórnsýsluendurskoðun hafa til þessa einkum snúið að ríkisaðilum og þeim viðfangsefnum sem ríkið sjálft sinnir en síður að þeim aðilum sem ríkið veitir fjárframlög til tiltekinna verkefna eða felur að annast nánar tilgreind lögbundin verkefni. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld í æ ríkara mæli falið öðrum að sjá um ýmsa lögbundna þjónustu og sýnt er að þeirri stefnu mun verða fylgt í framtíðinni. Af þessum sökum er ljóst að verklag Ríkisendurskoðunar við að sinna því hlutverki sínu að kanna trúverðugleika fjárhagsupplýsinga og nýtingu ríkisframlaga mun taka breytingum.

Viðfangsefni Ríkisendurskoðunar á þessu sviði er annars vegar að kanna hvort þjónustuaðilar standi við þá samninga sem ríkið gerir við þá. Hins vegar er henni ætlað að meta hvort þeir aðilar sem eiga rétt á þeirri lögbundnu þjónustu sem samningarnir fjalla um fái hana. Ríkisendurskoðun hefur því ákveðnu hlutverki að gegna við þjónustusamninga ríkisins og henni er einnig tryggður aðgangur að þeim bæði í lögum um stofnunina og í samningunum sjálfum.

Við stjórnsýsluendurskoðun hefur Ríkisendurskoðun stundum kannað og lagt mat á hvernig til hafi tekist við að veita slíka þjónustu. Til þess að geta metið hvaða raunverulega árangri fjármunirnir skila og hvort framkvæmd og gæði þjónustunnar séu ásættanleg þarf að kalla eftir upplýsingum frá þeim sem hana fengu. Því má segja að hér sé á ferðinni nýr markhópur sem tengist eftirliti Ríkisendurskoðunar.

Eitt af lögbundnum verkefnum Ríkisendurskoðunar felst í að kanna og votta áreiðanleika kennitalna, t.d. verkefnavísa um umsvif og árangur af starfsemi stofnana. Kennitölur um umsvif og árangur hafa ekki einungis upplýsingagildi heldur geta einnig haft margvíslega hagnýta þýðingu við stjórnun þar sem þær lýsa því hvernig stofnunum gengur að ná markmiðum sínum. Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum árum fylgst á skipulegan hátt með því hvernig henni sjálfri tekst að ná árangri í starfi. Í því skyni hefur hún þróað nokkra árangursmælikvarða til að meta fjögur lykilsvið stofnunarinnar, þ.e. þjónustu, innri verkferla, starfsmenn og þróun og loks fjármál. Þessir þættir eru að hluta til valdir í samvinnu við aðrar norrænar ríkisendurskoðanir í því skyni að gera innbyrðis samanburð þeirra í milli mögulegan. Í ársskýrslunni er gerð nákvæm grein fyrir niðurstöðu þessara mælinga og koma þær nokkuð vel út fyrir stofnunina.

Þau verkefni sem ekki verða heimfærð beint undir endurskoðun sem og önnur almenn starfsemi stofnunarinnar voru með hefðbundnu sniði á árinu 2004. Hér er einkum átt við eftirlit með staðfestum sjóðum og sjálfseignarstofnunum, eftirlit með reikningsskilum sókna og kirkjugarða, námskeið, endurmenntun starfsmanna o.fl.

Ríkisendurskoðun er í umtalsverðum alþjóðlegum samskiptum á sínu sviði. Hún er aðili að ýmsum fjölþjóðlegum samtökum um endurskoðun, auk þess sem hún hefur gott samband við systurstofnanir í nágrannaríkjunum. Samstarf á þessum vettvangi er mjög mikilvægt. Þess má geta að næsta haust verður haldinn hér fundur Evrópudeildar alþjóðasamtaka ríkisendurskoðenda.

Eins og ég gat um áðan er það nýmæli að finna í skýrslunni að þar er til fróðleiks og til að veita örlitla innsýn í störf Ríkisendurskoðunar gerð grein fyrir nokkrum aðferðum af mörgum sem starfsmenn hennar beita í daglegum störfum sínum. Í þessu skyni lýsa fimm starfsmenn hennar nokkrum aðferðum og sjónarmiðum sem móta dagleg störf þeirra. Fjallað er um handbækur og staðla stofnunarinnar, aðferðir við stjórnsýsluúttektir, greiningu gagna og rafrænar viðhorfskannanir. Loks er í skýrslunni að finna stutta en mjög áhugaverða og fróðlega grein um stofnanamálið.

Hæstv. forseti. Forsætisnefnd sótti Ríkisendurskoðun heim fyrir nokkrum dögum og átti þar ánægjulegan fund þar sem ýmis mál voru rædd.

Ég vil svo láta þess getið að ég mun beita mér fyrir því að framvegis verði skýrsla Ríkisendurskoðunar tekin til umræðu á vettvangi nefnda Alþingis, t.d. hjá fjárlaganefnd, en viðlíka athugun fer fram hjá allsherjarnefnd á ársskýrslu umboðsmanns. Þannig gætu þingmenn átt orðastað og fengið útskýringar ríkisendurskoðanda um þau atriði sem þeir telja nauðsynlegt. Öllum er hollt að sæta eftirliti, líka eftirlitsstofnunum.

Að lokum vil ég fyrir hönd Alþingis flytja Ríkisendurskoðun og starfsmönnum hennar þakkir fyrir vel unnin störf á því ári sem hér hefur verið fjallað um.