132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar 2004.

[11:16]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég gerði var að vitna í formála að þeirri ársskýrslu sem hér er til umfjöllunar og vitnaði orðrétt í orð ríkisendurskoðanda. Ég get, til að gera málið enn gleggra fyrir hv. þingmanni, bætt hér við, því milli þeirra tilvitnana sem ég fór með áðan segir ríkisendurskoðandi, með leyfi forseta:

„Að mínu mati er full þörf á að stjórnvöld skilgreini nánar og skýri í hverju ábyrgð æðstu stjórnenda ríkisins og embættismanna felst þegar á reynir.“

Frú forseti. Ég get í raun tekið algerlega undir með ríkisendurskoðanda hvað þetta varðar. Þess vegna spurði ég hv. þingmann sem forseta þingsins hvort mætti vænta frumkvæðis frá forsetaembættinu vegna þess að hér er bent eðlilega á að telja verði að Alþingi hafi nokkra frumkvæðisskyldu á þessum vettvangi.

Frú forseti. Ég hefði viljað bæta við annarri spurningu í framhaldi af þeim orðum sem ég fagnaði hér áðan, um að ársskýrsla Ríkisendurskoðunar yrði sett í formlegan farveg til fjárlaganefndar, hvort hv. þingmaður muni vilja beita sér fyrir því sem forseti þingsins að aðrar skýrslur frá Ríkisendurskoðun fengju einnig formlega umfjöllun í nefndum þingsins. Þá yrði auðvitað ekki hægt að festa það fyrir fram í hvaða nefndum það ætti að vera. Sumar mundu að sjálfsögðu fara til efnahags- og viðskiptanefndar, aðrar til fjárlaganefndar, enn aðrar til annarra fagnefnda allt eftir eðli skýrslnanna. Eitt af því sem við höfum þurft að horfa upp á ansi oft er að Ríkisendurskoðun hefur skilað frá sér áhugaverðum skýrslum sem síðan hafa ekki fengið neinn farveg. Því miður eru allt of mörg dæmi um að athugasemdir sem koma fram í skýrslum Ríkisendurskoðunar hafa ekki leitað í réttan farveg og í rauninni gleymst og ekkert verið eftir þeim farið.