132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar 2004.

[11:45]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er eðlilegt að byrja á því að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa bent á að við erum að fjalla hér um aðra af tveimur mjög mikilvægum eftirlitsstofnunum með ríkisvaldinu sem heyra undir Alþingi og það er eðlilegt að við tryggjum sem besta umfjöllun um þau málefni. Ég vil því enn á ný fagna þeim orðum hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur um að hún muni beita sér fyrir því að ársskýrsla Ríkisendurskoðunar fari til umfjöllunar í nefnd þingsins. Enn fremur fagna ég því sem kom fram í andsvörum hv. þingmanns við mig fyrr í umræðunni og tek undir með hv. þingmanni að það sé eðlilegt að tengja umfjöllun um skýrslu Ríkisendurskoðunar vinnu í þingnefndum við endurskoðun þingskapa. Ég vona að það fái þar nokkra stöðu vegna þess að það er auðvitað ekki í lagi eins og þetta hefur verið hjá okkur, þ.e. að það sé tilviljunarkennt hvernig um þessar skýrslur er fjallað. Og varðandi t.d. ályktanir eða hvaða lærdóm má af þeim draga þá eru, ef ég man rétt, einhver örfá dæmi um að nefndir hafi ályktað en meginreglan er sú að það er ekki gert. Því miður hefur mér sýnst að framkvæmdarvaldið hafi, svo ég einfaldi örlítið, oft og tíðum a.m.k. hagað sér þannig að skýrslurnar hafa verið nýttar ef niðurstöður hafa verið þægilegar en hafi þær verið óþægilegar þá hafi þeim frekar verið ýtt til hliðar og ekkert með þær gert.

Ég get nefnt nokkur dæmi vegna þess að það er t.d. eitt af skráðum hlutverkum Ríkisendurskoðunar að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga og einkum nýtingu fjárheimilda og fjárreiðum og fjárvörslu stofnana og endurskoða síðan reikninga þeirra. Það er alveg ljóst að Ríkisendurskoðun hefur gert mjög margþættar athugasemdir við framkvæmd fjárlaga og það verður að segjast eins og er að því miður hefur ekkert eða sáralítið verið eftir því farið, allt of lítið eftir því farið.

Við höfum hins vegar í stjórnarandstöðunni gjarnan nýtt okkur þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar í umræðum um fjárlagafrumvarpið og höfum margendurtekið athugasemdir frá Ríkisendurskoðun um ýmsa þætti en því miður höfum við ekki náð árangri í þeim efnum, t.d. varðandi það að bæta vinnubrögð. Það hefur margoft verið bent á það t.d. í skýrslum frá Ríkisendurskoðun að fjárlaganefnd í umboði Alþingis hafi töluvert stórt hlutverk varðandi það að fylgjast með framkvæmd fjárlaga. Þetta hefur því miður ekki náðst fram og það er auðvitað engu um að kenna öðru en því að meiri hluti nefndarinnar hefur ekki unnið í þeim anda, hver sem ástæðan er fyrir því. Við höfum auðvitað oft bent á að margt bendi til þess að meiri hluti ýmissa nefnda í þinginu sé svo tengdur framkvæmdarvaldinu að hann þori sig vart að hreyfa ef framkvæmdarvaldið er ekki sátt við þá hreyfingu. Ég held að ýmislegt bendi til þess varðandi eftirlit með framkvæmd fjárlaga að meiri hluti fjárlaganefndar sé svo tengdur framkvæmdarvaldinu að hann hafi ekki treyst sér til að beita sér í málinu.

Að vísu hefur, svo alls sé gætt í umræðunni, komið fram að upplýsingakerfi ríkisins hafi verið þannig að það hafi verið vandmeðfarið að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Þær upplýsingar hafa nú borist okkur að það eigi að vera komið í lag. Það er alveg með ólíkindum hversu langan tíma það hefur tekið vegna þess að svo mörg eru árin síðan hafin var endurskoðun á þessu kerfi og svo margar eru milljónirnar sem farið hafa í að reyna að bæta það. En við vonum að nú sé kerfið komið í það mikið lag að hægt sé að hefja þetta eftirlit með framkvæmd fjárlaga, sem er afskaplega mikilvægt vegna þess að ef það er ekki til staðar þá er auðvitað hætta á að sú lausung sem verið hefur í allt of mörg ár varðandi fjárlögin og umgengni um þau haldi áfram. En eitt af þeim málum sem er hvað brýnast til að hægt sé að ná utan um og hafa almennilega stjórn á ríkisfjármálunum er auðvitað að fjárlögin fái þann sess sem þeim ber, þ.e. að þau séu eins og önnur lög og eftir þeim sé farið. En það er sérstaða okkar m.a. í samanburði við nágrannaþjóðir okkar hvernig við umgöngumst fjárlögin á allt, allt annan hátt en þær.

Frú forseti. Það annað sem margoft hefur komið fram í skýrslum Ríkisendurskoðunar og ekki hefur verið fylgt eftir. Ég nefni annað dæmi sem við í stjórnarandstöðunni höfum leitað eftir, bæði í fjárlaganefnd og í umræðum í þinginu, en það er að fyrir liggi algjörlega skýrt hver staða stofnana er áætluð í árslok þannig að það sé alveg ljóst hver grunnur stofnana er þegar þær hefja nýtt fjárhagsár. Þetta hefur því miður ekki náðst fram. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir virðast ekki hafa verið til í kerfinu upplýsingar um hvernig viðkomandi stofnanir verða staddar í árslok og menn hafa þar af leiðandi ekki vitað hver staða stofnananna verður í ársbyrjun. Í raun og veru vita menn ekki í þinginu þegar verið er að samþykkja fjárlög fyrir næsta ár hvaða fjárheimildir eru til hverrar stofnunar. Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Þetta hefur margoft komið fram í skýrslum Ríkisendurskoðunar en hefur því miður ekki náð fram. En að sjálfsögðu verður nú á næstu vikum gerð enn einu sinni tilraun til að ná því markmiði.

Frú forseti. Ég vil nefna enn eitt dæmi og það er varðandi fjáraukalög. Ríkisendurskoðun hefur til fjölda ára gert athugasemdir við það hvernig fjárveitingavaldið hefur verið fært frá Alþingi til ríkisstjórnarinnar, þ.e. framkvæmdarvaldið hefur tekið fram fyrir hendurnar á löggjafarvaldinu. Það eru mýmörg dæmi um að ríkisstjórnin hefur í raun og veru tekið ákvörðun í skjóli þess að hún hefur haft mjög traustan meiri hluta í þinginu og hefur þar af leiðandi ekki farið eftir þeim lögum og reglum sem gilda um það hvernig taka eigi ákvarðanir um það sem fer á fjáraukalög. Ríkisendurskoðun hefur margoft bent á þá hættu sem þessu er samfara. Þrátt fyrir það hefur lítil breyting orðið í því frumvarpi sem nú er til umfjöllunar í sambandi við fjáraukalög fyrir árið 2005. Að vísu hafa verið stigin sáralítil skref á undanförnum árum þar sem menn hafa nálgast þau markmið sem sett voru með lögum um fjárreiður ríkisins en því miður víðs fjarri því sem eðlilegt getur talist. Þetta er enn eitt dæmið um að vandaðar skýrslur, vandaðar athugasemdir sem komið hafa frá Ríkisendurskoðun hafa ekki náð fram að ganga. Það er m.a. vegna þess, held ég, að margar skýrslur þeirra fá ekki formlega umfjöllun og ekki er ályktað um þær.

Það hafa nokkrum sinnum orðið átök um það í fjárlaganefnd hvort álykta ætti um skýrslu og er ein sérstaklega minnisstæð. Því miður náðist það ekki fram en hefði verið afskaplega brýnt vegna þess að þá hefði þingið sýnt að það væri í stakk búið til að gefa fyrirmæli út í samfélagið hvað þessi mál varðar. Þetta var afar mikil skýrsla sem gerð var um framkvæmdir hér hinum megin við Austurvöll í húsnæði sem Alþingi tók á leigu fyrir nokkrum árum. Farið var nokkuð gaumgæfilega yfir það mál allt saman og ýmsar athugasemdir komu fram. Við í minni hluta fjárlaganefndar töldum að allt benti til þess að samstaða yrði í nefndinni um að álykta um málið og full ástæða væri til, en á einhverjum tímapunkti varð einhver breyting í meiri hluta nefndarinnar og aldrei náðist nein afgreiðsla á skýrslunni.

Þetta er eitt dæmi en því miður eru þau fleiri og það væri auðvitað hægt að tína fleira til. Eitt kemur upp í hugann sem nýlega kom fram í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, ef ég man rétt, varðandi kostnað við kaup á sérfræðiþjónustu. Fyrir nokkrum árum kom Ríkisendurskoðun einmitt með skýrslu um það og var með ýmsar ábendingar um hvernig að þeim málum ætti að standa. Ýmislegt bendir til að sú skýrsla hafi ekki náð til allra þeirra sem af henni hefðu getað lært því að miðað við þróun mála virðist lítið hafa breyst í þeim efnum. Það þarf auðvitað að skoða nánar og er spurning hvort tími sé kominn til að vinna aðra skýrslu um þetta til að hafa samanburð. Það er kannski eitt af því sem við ættum að taka upp að að ákveðnum tíma liðnum frá því að skýrsla hefur verið gerð væri eðlilegt að farið væri yfir hvaða árangur hefði náðst miðað við þær athugasemdir sem fram hefðu komið.

Frú forseti. Ég vildi aðallega með þessum orðum mínum vekja athygli á því að skýrslur Ríkisendurskoðunar eru oft og tíðum býsna vandaðar, koma með miklar og gagnlegar athugasemdir en farveginn skortir fyrir það hvernig við getum tryggt að eftir þeim sé farið. Það verður að segjast eins og er að úr því að við höfum slíkar eftirlitsstofnanir þá er ekki eins mikið gagn í þeim og nauðsynlegt er ef ekki er tryggt að farið sé eftir athugasemdum þeirra þegar það á við. Auðvitað geta á stundum — og er eðlilegt — verið deildar meiningar um niðurstöður stofnunar varðandi einstaka þætti. Þess vegna þarf að tryggja að það sé farvegur fyrir umræðu um skýrslurnar þannig að menn komist a.m.k. að niðurstöðu um hvað sé eðlilegt að setja í gang og hvað ekki.

Frú forseti. Ég endurtek að lokum að ég fagna þeim orðum hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur að það væri eðlilegt að tekið yrði inn í endurskoðun þingskapa hvaða farveg við vildum hafa á því hvernig fjallað verður um skýrslur Ríkisendurskoðunar í framtíðinni.