132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2004.

[12:33]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir starfsárið 2004. Eins og venja hefur verið til þá fundaði allsherjarnefnd Alþingis með umboðsmanni Alþingis til að fara yfir helstu áherslur í skýrslunni og helstu niðurstöður. En eins og heyra hefur mátt af umræðunni hér í dag þá er, eins og venja er reyndar, í inngangskafla skýrslunnar að finna samantekt yfir helstu áhersluatriði þess árs sem skýrslan tekur til eða helstu viðfangsefni öllu heldur.

Skemmst er frá því að segja að á fundi umboðsmanns Alþingis með allsherjarnefnd koma gamlir kunningjar, ef svo má segja, við sögu. Vissulega eru það viss vonbrigði að eftirrekstur embættisins með erindum sem eru í farvegi stjórnsýslunnar skuli vera jafnhátt hlutfall þeirra mála sem til meðferðar eru hjá embættinu og raun ber vitni. Því miður virðist það ítrekað vera þannig að of mörg mál eru í stjórnsýslunni strand eða þannig á vegi stödd að þeim hefur ekki verið svarað eða ástæða fyrir umboðsmann að öðru leyti til þess að hafa afskipti.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis gegnir afar mikilvægu hlutverki eins og hér hefur komið fram en í fleiri en einum skilningi. Í fyrsta lagi er þessi skýrsla mikilvæg vegna þess að hún geymir samantekt af þeim viðfangsefnum sem umboðsmaður hefur fengið til úrlausnar og tekið til afgreiðslu á viðkomandi ári og gefur þannig þinginu og almenningi innsýn í þau verkefni sem þar er við að eiga og þá jafnframt um um leið þær brotalamir sem er að finna í framkvæmd þeirra lagareglna sem frá Alþingi stafa. Þetta er afar mikilvægt.

Í öðru lagi geymir skýrsla umboðsmanns Alþingis almenna umfjöllun um þróun og, ég vil leyfa mér að segja, tilhneigingu hjá stjórnsýslunni til að bregðast við með tilteknum hætti. Þannig er fjallað um í skýrslunni með ólíkum hætti frá ári til árs ábendingar sem umboðsmaður Alþingis telur að mikilvægt sé að koma á framfæri í skýrslunni. Ég vil segja að þessi þáttur skýrslu umboðsmanns Alþingis er kannski sá sem við á hinu háa Alþingi eigum sérstaklega að horfa til vegna þess að það er þessi þáttur sem fremur hinum fyrri sem ég nefndi gefur okkur tilefni til taka reglurnar til skoðunar og veita framkvæmdarvaldinu enn frekara aðhald. Varðandi þau mál sem umboðsmaður Alþingis tekur til umfjöllunar sérstaklega og þau erindi sem hann tekur upp við framkvæmdarvaldið þá er það sem betur fer þannig að í langflestum tilvikum — það heyrir til algjörra undantekninga ef svo er ekki — í langflestum tilvikum bregst framkvæmdarvaldið við. Til að mynda í tilfelli ráðuneytanna er það í yfirgnæfandi meiri hluta tilvika þar sem mál eru færð til betri vegar og brugðist við þeim athugasemdum sem umboðsmaður kann eftir atvikum að hafa við framkvæmdina. Í sumum tilfellum koma skýringar. Í sumum tilfellum er verið að breyta reglum og í öðrum tilvikum þarf að breyta verklagi.

Í þriðja lagi gegnir skýrsla umboðsmanns mikilvægu hlutverki vegna þess að skýrslur umboðsmanns, frá því að embættið var sett á fót, þær samanlagt, eru orðnar ein mikilvægasta réttarheimildin sem við höfum til að túlka stjórnsýslureglurnar. Í því sambandi er mikilvægt að við höfum aðgang að ályktunum umboðsmanns Alþingis á veraldarvefnum, á netinu og þar er hægt að fletta upp einstökum álitaefnum, einstökum viðfangsefnum sem gefa þá niðurstöðu og sýna þau mál þar sem viðkomandi álitaefni hefur komið fyrir. Ég vil geta þess sérstaklega að ég tel að þetta sé ekki síður mikilvægt hlutverk þessarar skýrslu sem innlegg í þá réttarheimild sem skýrslur umboðsmanns Alþingis eru við túlkun á stjórnsýslureglum á Íslandi. Raunar er það svo að í sumum tilvikum eru skýrslur umboðsmanns og álit hans nánast einu réttarheimildirnar sem við höfum til að grípa til þegar túlka á álitaefni sem upp kunna að koma við túlkun á stjórnsýslureglunum.

Ég vil tiltaka sérstaklega tvennt sem ég held að Alþingi þurfi að taka til sérstakrar skoðunar í tilefni af þessari skýrslu og almennt má kannski segja að þetta eru atriði sem umboðsmaður Alþingis hefur áður vakið athygli á. Í fyrsta lagi virðist skorta á að í stjórnsýslunni hafi verið komið á með skipulegum hætti verklagsreglum til að tryggja að framkvæmd stjórnsýslunnar sé í samræmi við þær reglur sem um hana eiga að gilda. Umboðsmaður hefur bent á að þetta eigi í sjálfu sér að vera tiltölulega einfalt mál, tiltölulega einfalt átak sem grípa þurfi til, til þess að innleiða hvarvetna í stjórnsýslunni verklagsreglur sem væru til þess fallnar að tryggja rétta málsmeðferð í öllum tilvikum. Það verður að segjast eins og er að þær tölulegu staðreyndir sem skýrslan geymir styðja þessa ábendingu, þessa skoðun umboðsmanns, vegna þess í of mörgum tilvikum sjáum við að minni háttar mistök eiga sér stað í stjórnsýslunni sem trufla borgarana þegar þeir reka erindi sín gagnvart stjórnvöldum. Þau þvælast fyrir og skapa sóun á vinnu og fjármunum í hinu opinbera kerfi.

Hitt atriðið sem ég vildi tiltaka sérstaklega tengist hinu fyrra, þ.e. að við þurfum að gæta að því að mennta og fræða starfsmenn í stjórnsýslunni svo þeir geti sinnt erindum borgaranna á lögmætan hátt þannig að þeir taki á þeim erindum sem um ræðir á stjórnsýslulega réttan hátt. Til þess að við getum gert þá kröfu þurfa þeir í störfum sínum að vera upplýstir um þær reglur sem um störf þeirra gilda og um þau réttindi sem borgararnir eiga að geta gengið að sem vísum þegar þeir reka erindi sín fyrir stjórnvöldum.

Þetta eru tveir þættir sem mynda dálítið rauðan þráð í gegnum skýrslur umboðsmanns, þ.e. annars vegar að taka upp verklagsreglur. Þetta er ábending og áskorun til stjórnenda í stjórnsýslunni um að þeir taki til skoðunar hver á sínum vettvangi hvað þeir geti gert til að tryggja eðlilegan framgang þeirra erinda sem þeir hafa til umfjöllunar. Og síðan er hitt, að komið verði á almennu átaki, eða innan hverrar stofnunar fyrir sig, fræðsluátaki til að ganga úr skugga um að þeim starfsmönnum sem bera ábyrgð á framkvæmd þeirra reglna sem við erum hér að fjalla um í víðu samhengi séu þær reglur kunnugar og þeir fylgi þeim í hvívetna.

Að öðru leyti vil ég segja að mér sýnist afar vel að afgreiðslu mála staðið hjá embættinu. Það eru skýringar á því að fleiri mál eru óafgreidd í lok ársins heldur en voru á árinu áður. Það kemur ágætlega fram í skýrslunni hvernig þau mál hafa þróast og það er sundurliðað með afar skýrum hætti og aðgengilegum fyrir þá sem kynna sér efni skýrslunnar.

Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka hér sundurliðun á því hvernig einstakir málaflokkar hafa þróast. Það eru einkum þrjú atriði sem umboðsmaður vekur athygli á, þ.e. mikilvægi þess að samræma beitingu þeirra reglna sem við erum hér að fjalla um. Það tel ég að við getum tryggt með þeim hætti sem ég hef nú rakið, þ.e. að við sjáum til þess að innleiddar verði almennar, skýrar og gegnsæjar verklagsreglur í stjórnsýslunni og með því að tryggja nánari fræðslu starfsmanna stjórnsýslunnar og almennt opinberra starfsmanna.

Í öðru lagi tekur umboðsmaður til umfjöllunar viðfangsefni þar sem reynt hefur á lagaheimildir, þ.e. lögmætisreglu stjórnsýslulaganna. Ég held að þar komi umboðsmaður með afar þarfa ábendingu um að gætt verði að því þegar hið opinbera er að færa út kvíar sínar í hvers konar starfsemi að fyrir því sé nægjanleg lagastoð. Þetta er þörf ábending sem ég tel að ástæðu til að vekja athygli á.

Loks vekur umboðsmaður athygli á mikilvægi þess að þegar stjórnvöld taka að sér að hefja ný verkefni þá sé undirbúningur að þeim sé nægjanlegur því ella megi búast við því að út af bregði þegar kemur að sjálfsögðum hlutum eins og því að stjórnsýslureglum sé fylgt þegar þeim verkefnum er hrint úr vör.

Ég held að ég hafi í máli mínu farið yfir það helsta sem mér þykir ástæða til að staldra við í tilefni af þessari skýrslu. Ég vil að lokum segja að ég er alltaf ánægður með það hversu skýr skýrslan er og aðgengileg, öll framsetning til fyrirmyndar. Ég þakka því að lokum starfsmönnum umboðsmanns Alþingis fyrir vel unnin störf á því ári sem skýrslan tekur til.