132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2004.

[12:48]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla örstutt að bregðast við andsvari hv. þingmanns. Ég vil leggja á það áherslu að þegar ég ræði í þessu samhengi um verklagsreglur hjá stofnunum og ráðuneytum þarf slíkum verklagsreglum ekki að fylgja nein bylting á vinnubrögðum. Við erum í mörgum tilfellum einungis að tala um að viðkomandi aðilar gefi sér tíma til að fara yfir það hvernig þeir eiga að tryggja að stjórnsýslureglunum sé framfylgt. Þetta eru í mörgum tilvikum einföld atriði eins og hvenær þurfi að vera búið að svara erindi, hvenær þurfi að gæta að andmælarétti o.s.frv. Einmitt þess vegna tel ég að við eigum að geta gert miklar kröfur til að slíkar verklagsreglur séu teknar upp. Við eigum að taka alvarlega ábendingar umboðsmanns um að honum þyki of víða í stjórnsýslunni skorta á að menn hafi gefið sér tíma til að setja viðkomandi stofnunum slíkar reglur.

Í annan stað vil ég segja að ég tel að Alþingi sé ekkert að vanbúnaði að veita framkvæmdarvaldinu fullt aðhald. Við eigum í sjálfu sér að hafa öll tæki og tól til þess á grundvelli þingskapalaga og annarra reglna sem um þau efni gilda til að veita ráðherrum og þeim sem á viðkomandi málaflokkum bera ábyrgð fullt aðhald. Það má jafnframt gera með fyrirspurnum og þingsályktunartillögum og öðru þess háttar. Ég sé því ekki að okkur skorti neitt sérstakt til að taka það upp hjá sjálfum okkur að tryggja að eftir slíkum ábendingum verði farið.