132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2004.

[12:50]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki jafnsammála hv. þingmanni nú í síðara andsvari mínu vegna þess að við erum annars vegar að tala um viðbrögð sem verða í stjórnsýslunni sem skrifa má á fákunnáttu eða vanþekkingu. Þar ber okkur skylda til að tryggja fræðslu og þekkingu á málum þannig að farið sé að reglum og vinnubrögðum eins og best gerast annars staðar.

Hins vegar erum við líka að stríða við ákveðnar geðþóttaákvarðanir af því að hér hafa t.d. borist í tal í morgun aðfinnslur varðandi ferli við mannaráðningar. Mjög mikilvægt er að í stjórnsýslunni hjá okkur sé skilið á milli faglegrar og pólitískrar ráðningar. Það hefur ekki verið gert hingað til og mjög erfitt að bregðast við þeim málum. Jafnvel þó að búið sé að koma með aðfinnslur aftur og aftur úr svona þýðingarmiklum stofnunum eins og við erum að ræða í dag halda menn uppteknum hætti. Það þýðir lítið að koma með fyrirspurnir á Alþingi varðandi það. Sömuleiðis gildir það sama um stjórnsýsluúttektir. Í stjórnsýsluúttektum kemur kannski fram mikil gagnrýni á vinnubrögð og ef við skulum segja ráðherra leyfir sér að viðhafa sömu vinnubrögðin áfram og maður kemur með fyrirspurnir á Alþingi til að leiða þau mál í ljós og e.t.v. til að hafa áhrif á að betur sé að gert þá stendur bara gjarnan orð á móti orði um hvernig var farið með ábendingarnar og eftir situr gapandi tóm. Þetta leysist ekki í ræðustól Alþingis, þetta þarf að leysa öðruvísi. Eftirlitshlutverkið sem við fáum í gegnum stofnanirnar er þess eðlis að við verðum að vera með góð tæki til að tryggja að þau skili sér.