132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vandi á leikskólum vegna manneklu.

[13:41]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Lengi býr að fyrstu gerð er málsháttur sem á við í umræðunni um leikskólana. Á undanförnum árum hafa verið tekin mikilvæg skref til að treysta leikskóla og leikskólamenntunina. Það hefur verið lögfest að leikskólarnir séu og eru fyrsta skólastig og það ríkir almenn sátt í samfélaginu um mikilvægi þess að fagmennska ráði ríkjum þar sem yngstu börn þjóðarinnar dvelja á meðan foreldrar þeirra vinna eða læra.

Síðustu vikur hefur verið mikið rætt um þann vanda sem nú er uppi í leikskólum vegna þess hversu illa hefur gengið að manna leikskólana í haust, einkum þó á höfuðborgarsvæðinu. Leikskólakennarar og starfsfólk leikskóla hefur lagt metnað sinn í að viðhalda faglegu starfi þrátt fyrir þetta erfiða ástand. Því miður hefur þó sums staðar verið gripið til þess örþrifaráðs að loka deildum eða senda börnin heim með tilheyrandi afleiðingum fyrir börn og foreldra. Það er að mínu mati óviðunandi að mannekla trufli starfsemi leikskólanna ár eftir ár. Slíkt dregur úr þjónustu og faglegu starfi leikskólanna er hætta búin.

Leikskólarnir eru eins og við þekkjum alfarið reknir af sveitarfélögum. Það er á þeirra ábyrgð að halda uppi þjónustu og tryggja að lögum um leikskóla sé framfylgt. Það er hins vegar á ábyrgð ríkisins að tryggja hina faglegu umgerð leikskólans með lögum og námskrá sem og að standa að menntun leikskólakennara. Þegar þróunin í þeim efnum er skoðuð kemur í ljós að hlutfall menntaðra leikskólakennara fer stigvaxandi og er nú 32%. Þeim fjölgar hins vegar ekki í samræmi við þá miklu fjölgun sem orðið hefur á útskrifuðum leikskólakennurum.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni eru nú hátt í 1.600 einstaklingar með leikskólakennaramenntun en starfandi leikskólakennarar eru einungis 1.234. Það eru því um 400 menntaðir leikskólakennarar sem kjósa að vinna við annað en leikskólastörf.

Því hefur verið haldið fram, m.a. af borgaryfirvöldum í Reykjavík, að fjárskortur Kennaraháskóla Íslands hamli því að stúdentar komist í nám fyrir leikskólakennara og borgarstjórinn í Reykjavík hefur m.a. hvatt til þess að skólunum verði gert kleift að bregðast við umsóknum. Af þessu tilefni vil ég taka sérstaklega fram: Á síðustu 15 árum hafa verið útskrifaðir rúmlega þúsund leikskólakennarar frá Fósturskóla Íslands og Kennaraháskólanum og frá 1999 hafa útskrifast um 200 leikskólakennarar frá Háskólanum á Akureyri. Samtals hafa því útskrifast um 1.260 leikskólakennarar á því tímabili og sem stendur eru um 460 leikskólakennaranemar við þessar brautir í fyrrnefndum háskólum.

Þessar tölur, virðulegi forseti, sýna að mínu mati fram á að veruleikinn er mun flóknari en sumir vilja vera láta. Það hefur verið stuðlað að mikilli fjölgun háskólamenntaðra leikskólakennara og mörg hundruð munu bætast við í þeirra góða hóp á næstu árum. Hins vegar sjáum við jafnframt að stór hluti þeirra sem ljúka þessari menntun kýs að starfa á öðrum vettvangi. Það er því greinilega ekki nóg að fjölga menntuðum leikskólakennurum, það verður ekki síður að tryggja að það starfsumhverfi og þau kjör sem í boði eru séu þess eðlis að það tryggi að leikskólakennarar komi til starfa á leikskólanum.

Sem ráðherra vil ég gera það sem hægt er til að stuðla að því að þessi vandi verði leystur. Í fyrsta lagi vil ég nefna að í ráðuneytinu er starfandi samráðsnefnd um leikskóla sem í eiga sæti fulltrúar frá ráðuneytinu, Félagi leikskólakennara, Sambandi ísl. sveitarfélaga og stéttarfélaginu Eflingu. Sú nefnd er umræðu- og samstarfsvettvangur um ýmis fagleg málefni sem tengjast leikskólunum.

Á síðasta fundi í lok október var ákveðið að samráðsnefndin hefði frumkvæði að því í byrjun næsta árs að boða fulltrúa þeirra hagsmunaaðila sem koma að leikskólamálum til málþings og ég tel að hægt sé og það eigi að nýta þessa samráðsnefnd mun betur til að fara skipulega yfir stöðu leikskólans og einstök úrlausnarefni.

Í öðru lagi vil ég nefna að sérstakur starfshópur er að vinna að endurskoðun laga um lögverndun á starfsheitum og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Hefur starfshópurinn sérstaklega verið beðinn um að athuga möguleika á því að leikskólakennarar falli undir lögverndarlögin eftir því sem eðlilegt getur talist.

Í þriðja lagi er á vegum ráðuneytisins vinnuhópur að störfum með fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila sem hefur það að markmiði að koma með tillögur að framtíðarskipan kennaramenntunar í landinu. Í þeirri nefnd er fjallað um menntun leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara og þess er vænst að hópurinn skili af sér tillögum fljótlega.

Í fjórða lagi vil ég geta þess að ég hef sérstaklega óskað eftir því að málefni leikskólans verði tekin á dagskrá m.a. á vettvangi norrænu menntamálaráðherranefndarinnar en fram til þessa hafa leikskólamálin verið rædd á vettvangi félagsmála í norrænu samstarfi. Með þessu vilja íslensk menntayfirvöld undirstrika það að leikskólastigið er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og með því erum við líka að undirstrika mikilvægi þess að umræðan um leikskólann á norrænum vettvangi sé á faglegum nótum á forsendum skólastarfsins.

Við viljum öll, virðulegi forseti, að fagmennska sé í fyrirrúmi í leikskólum landsins og að kennarar fái greitt fyrir þær kröfur sem við setjum fram.