132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vandi á leikskólum vegna manneklu.

[13:47]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra sagði að veruleikinn væri flókinn og það er svo sannarlega rétt. Og hún hitti auðvitað líka naglann á höfuðið þegar hún sagði sjálf í ræðu sinni að þetta sé spurning um starfsumhverfi og kjör, manneklan á leikskólunum snýst um starfsumhverfi og kjör fólks. Skýringin á því af hverju 400 manns úti í samfélaginu með leikskólakennarapróf eru ekki að störfum í leikskólum við kennslu er auðvitað sú að þessu starfi hefur ekki verið umbunað á þeim nótum sem við getum talið eðlilegt þegar skoðuð er ábyrgð þeirra einstaklinga sem gegna starfi leikskólakennara.

Ég fagna því að leikskólakennaranámið sé í endurskoðun og ég tek undir með hv. málshefjanda hvað varðar þau efni sem hún telur að geti verið til úrbóta hér. Við þurfum að taka á í menntamálunum en við þurfum jafnframt að tryggja að það fólk sem sækir í leikskólakennarastarfið fái mannsæmandi laun. Það er grundvöllurinn og auðvitað getur ríkið ekki firrt sig algerlega ábyrgð í þeim efnum. Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga liggur þarna undir og við vitum að krafan á leikskólana alveg eins og krafan á grunnskólana hefur aukist gríðarlega mikið undanfarin ár. Við vitum að grunnskólinn hefur verið einsetinn síðan hann fór til sveitarfélaganna en ríkið hefur ekki komið til móts við sveitarfélögin með aukin fjárframlög og sama má segja um leikskólann. Ég tel því einsýnt að tekjuskiptingarnefnd ríkis og sveitarfélaga hljóti að verða að fara ofan í þessi mál líka.

Hæstv. menntamálaráðherra segist vilja bera hina faglegu ábyrgð. Það er auðvitað af hinu góða en ég segi líka: Við megum ekki firra okkur raunveruleikanum með því að neita að horfast í augu við að hér er um að ræða störf sem eru á hraðri leið með að verða láglaunastörf í samfélaginu, í því þenslusamfélagi sem við búum við. Hver ber ábyrgð á þenslunni? Það skyldi þó ekki vera að ríkisstjórnin ætti sinn hlut þar að máli?