132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vandi á leikskólum vegna manneklu.

[13:49]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, fyrir að vekja máls á málefnum leikskólanna. Enginn efast um mikilvægi þeirrar starfsemi sem fram fer á leikskólunum. Leikskólakennarar og leiðbeinendur eru allan daginn að annast dýrmætustu eign þjóðarinnar, þ.e. framtíðina. Hins vegar vitum við að illa gengur að manna stöður í leikskólunum. Mannekla á leikskólum dregur úr þjónustu og erfitt er fyrir starfsfólkið að tryggja faglegt starf.

Reyndar má geta þess að í sumum sveitarfélögum hefur gengið ágætlega að manna leikskólana. Sem dæmi má nefna að leikskólar á Akureyri eru fullmannaðir og 70% starfsmanna þar eru með réttindi. Ég held að ríki alger þjóðarsátt um að greiða betur fyrir umönnunar- og uppeldisstörf. Það skiptir okkur máli að gott fólk fáist í þessi störf. Í þessu tilviki má einnig minna á að hér er um dæmigerða kvennastétt að ræða sem lengi sat eftir í launaþróuninni. Þó urðu nokkrar leiðréttingar í síðustu kjarasamningum þannig að málin eru að mjakast.

Málaflokkurinn er á forræði sveitarfélaganna. Við verðum að standa vörð um sjálfsforræði þeirra en störfin eru þess eðlis að þau koma okkur öllum við vegna þess að hér er um uppeldis- og umönnunarstörf að ræða. Við getum ekki búist við að fólk fari í þessi störf án þess að gera þau meira aðlaðandi og þá með hærri launum. Tölur sem hæstv. ráðherra vísaði í sýna að menntaðir leikskólakennarar skila sér ekki í störfin. Ekki er nóg að fjölga menntuðum leikskólakennurum, þeir verða að vilja starfa í faginu. Ég fagna þess vegna starfi hæstv. menntamálaráðherra sem stuðlar að því að efla leikskólastigið enn frekar.