132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vandi á leikskólum vegna manneklu.

[13:51]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er það algerlega óviðunandi að leikskólar þurfi að glíma við manneklu vikum eða mánuðum saman. Það er einnig óviðunandi þegar mikil hreyfing er á starfsfólki leikskóla þannig að fólk staldri stutt við í starfi og nýtt fólk taki við. Það hlýtur að valda röskun og álagi hjá börnunum að þurfa stöðugt að efna til nýrra kynna við fullorðna einstaklinga.

Í rúmlega mánaðargamalli ályktun trúnaðarmanna leikskólakennara í Reykjavík eru það fyrst og fremst bágborin laun leikskólakennara og annars starfsfólks sem talin eru valda því að fólk tollir illa í störfum við leikskólana. Þegar litið er til grunnlauna ófaglærðra starfsmanna leikskóla og leikskólakennara hlýtur maður að fallast á þá staðreynd að launakjör þessa fólks eru hneykslanlega léleg. Það hlýtur að teljast ábyrgðarhluti fyrir sveitarfélögin að þau taki launamál starfsmanna leikskóla til gagngerðrar endurskoðunar með hækkanir í huga og einnig að skoðað verði alvarlega hvort ríkið geti þar komið að. Við verðum einnig að gæta þess um leið að þeir sem hafa minnstar tekjur í dag, láglaunafólk, námsmenn, einstæðir foreldrar og aðrir verði ekki fyrir barðinu á slíkum hækkunum en við hin sem njótum góðra tekna, hvort sem um er að ræða launatekjur eða fjármagnstekjur, ættum að geta látið meira af hendi rakna til samneyslunnar. Því miður er það svo, virðulegi forseti, að stefna ríkisvaldsins er hins vegar sú að þeir sem lægri launin hafa njóta ekki betri kjara. Vegna hvers? Jú, skattastefnu stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.