132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

26. mál
[14:47]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur hér fjallað um tillögu Vinstri grænna um sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga til að koma á gjaldfrelsi í áföngum í leikskólum landsins. Það er löngu viðurkennt að leikskólinn er fyrsta skólastigið. Menn geta endalaust rætt um það hvenær það eigi að byrja, við hvaða aldur barnsins, en leikskólinn er fræðslustig og það er gífurlega mikilvægt að öll börn eigi kost á þeirri fræðslu sem vera á leikskóla býður upp á.

Annað sem ég vil líka nefna er að samfélagsgerð okkar byggir á því að leitað sé allra leiða til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og gegnir uppbygging leikskólans og grunnskólans mjög þýðingarmiklu hlutverki í að þar verði farsæl þróun.

Í sveitarstjórnarkosningunum árin 1999 og 2003 var þetta mál, gjaldfrjáls leikskóli — og í fyrra skiptið voru það elstu börnin — sett fram sem helsta baráttumál Samfylkingarinnar í Kópavogi. Það er alveg ljóst að ef gera á leikskólann alveg frjálsan, sem hlýtur að verða baráttumál okkar allra sem viljum sjá þetta samfélag sem ég er að lýsa, þá verður ríkið að taka þátt í því og það er þess vegna sem ég veiti þetta andsvar. Það verður að vera ríkisþátttaka með einhverjum hætti, t.d. tilflutningi tekjustofna sveitarfélaga. Í dag er reyndar fjármálaráðstefna sveitarfélaganna og hver veit nema bæði ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefðum gert meira gagn með að vera þar og tala máli sveitarfélaganna en hér á Alþingi við þessa umræðu.